Innlent

Vilja virkja borgarana og tryggja gjaldfrjálsa þjónustu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sanna og Trausti leiða lista Sósíalistaflokksins í Reykjavík.
Sanna og Trausti leiða lista Sósíalistaflokksins í Reykjavík. Sósíalistaflokkurinn

Sósíalistaflokkur Íslands kynnti í dag stefnumál sín í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Lögð er áhersla á að tryggja aðkomu íbúanna að ákvarðanatökku, tryggja gjaldfrjálsa grunnþjónustu og að útrýma biðliestum eftir húsnæði.

Fram kemur í tilkynningu frá flokknum að markmið flokksins sé samfélagslegt frelsi, jöfnuð, mannhelgi og samkennd. Markmiðin náist eingöngu með því að færa völdin í hendur fólks í landinu og með valddreifðri stjórn þar sem hagsmunir fólks séu í fyrirrúmi. 

Þá segir að Reykjavíkurborg eigi að vera byggð út frá þörfum og væntingum fólksins sem þar búi en ekki á forsendum fjármagns, „sem allt of oft fær að ráða“.

Ungt fólk leiðir lista flokksins í borginni: Oddviti hans er hin 29 ára gamla Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi og í öðru sæti Trausti Breiðfjörð Magnússon, stuðningsfulltrúi og nemi sem er 26 ára gamall. 

Þau segjast í tilkynningunni stefna á að ná sterkum áhrifum innan borgarstjórnarinnar og séu tilbúin til að stuðla að því að borginni sé stjórnað af róttækum vinstrimeirihluta.

Lesa má helstu stefnumál flokksins fyrir borgarstjórnarkosningar hér að neðan. 

Borgin á að byggja

  • Útrýmum biðlistum eftir húsnæði.
  • Borgin stofni byggingafélag og hefji byggingu á 3000 óhagnaðardrifnum íbúðum nú þegar í gegnum félagsbústaði.

Tryggja skal tekjur Reykjavíkurborgar

  • Útsvar verði tekið af fjármagnstekjum svo að allir greiði jafnt til samfélagsins.
  • Ríkið hætti útvistun á verkefnum til sveitarfélaganna án þess að fjármagn og tekjustofnar fylgi.
  • Þrepaskipt aðstöðugjöld á fyrirtæki. Smæstu fyrirtækin greiði lítið en þau allra stærstu greiði meira.
  • Hluti af áfengisgjaldi renni til Reykjavíkurborgar til að þjónusta íbúa með áfengis- og vímuefnavanda.

Fólkið á að ráða

  • Virkt notendasamráð verði tekið upp við íbúa Reykjavíkur.
  • Þátttökulýðræðisleg fjárlagagerð (e. participatory budgeting), þar sem Reykvíkingar taka þátt í formlegri veitingu fjármagns til verkefna. Fyrir þessu er fordæmi erlendis frá sem hafa gengið vel.
  • Almenningssamgöngur þurfa að vera hannaðar af þeim sem reiða sig á þær og framtíð þeirra mótuð út frá kröfum þeirra sem á þær treysta.
  • Íbúar, notendur þjónustu starfsmenn og fulltrúar geta komið saman að stjórnun og framkvæmd almannaþjónustunnar, þannig nýtist sameiginleg þekking og reynsla best.

Grunnþjónusta á að vera gjaldfrjáls og börn eiga ekki að borga

  • Grunnstoðir samfélagsins skulu félagsvæddar þannig að við getum öll lifað frjáls frá heilsuspillandi aðstæðum, fjárhagskvíða og afkomuótta.
  • Börn hafa ekki tekjur og eiga ekki að borga gjöld. Öll menntun, skólamáltíðir, íþrótta og frístundaiðkun verði gjaldfrjáls. Vernda skal börn frá fátækt.
  • Talmeinafræðingar og aðrir sérfræðingar starfi innan skóla.
  • Skólar og umhverfi þeirra verði hannaðir út frá þörfum barna.
  • Öllum börnum verði tryggð móðurmálskennsla óháð uppruna.

Burt með láglaunastefnuna

  • Bæta þar sérstaklega kjör og starfsaðstæður skólastarfsfólks og þeirra sem starfa við umönnun, en líka allra hinna. Hættum að borga lúsalaun.
  • Útvistun verkefna, s.s. ræstinga, verði hætt hjá Reykjavíkurborg og í fyrirtækjum í eigu hennar. Allt starfsfólk borgarinnar á að vinna beint hjá henni en ekki hjá starfsmannaleigum.
  • Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga verði hækkuð svo að hún dugi fólki til að lifa mannsæmandi lífi, óháð búsetu- og sambúðarformi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×