Greint er frá þessari ákvörðun Skattsins í nýbirtum ársreikningi Jarðborana en tekið er fram að fyrirtækið, sem er að stærstum hluta í eigu Samherja og íslenskra lífeyrissjóða í gegnum félagið SF III, muni taka til varna þar sem það telji að öll viðskipti milli félaganna hafi verið eðlileg.
Tekjur Jarðborana á árinu 2021, sem var þá með starfsemi á Íslandi, Azoreyjum í Portúgal og Djíbútí, námu samtals 3.258 milljónum króna og minnkuðu um liðlega 170 milljónir á milli ára. Rekstarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam hins vegar rúmlega 500 milljónum borið saman við rekstrartap upp á 183 milljónir á árinu 2020. Þá minnkaði einnig heildartap félagsins verulega og var 90 milljónir í fyrra en 621 milljón árið áður.
Meðalfjöldi starfsmanna hjá samstæðu Jarðboranna í fyrra var 79 talsins borið saman við 87 starfsmenn á árinu 2020.
Fram kemur í skýrslu stjórnar að rekstur síðasta árs hafi verið „í járnum eins og áætlanir höfðu gert ráð fyrir.“ Rekstrarhorfur fyrir árið 2022 væru hins vegar betri og áætlað sé að hagnaður verði af starfsemi félagsins að nýju eftir tap síðustu tveggja ára. Umtalsverðar fjárfestingar eru fyrirhugaðar í ár, meðal annars vegna endurvottunar á tveimur stærstu borum fyrirtækisins. Þá er áætlað að lausafjárstaða og eigið fé haldist sterkt.
Í árslok 2021 námu heildareignir Jarðborana rúmlega 5,5 milljörðum króna og var eigið fé félagsins um 3,55 milljarðar króna.
Sigurður Sigurðsson hefur verið forstjóri Jarðborana frá því í ársbyrjun 2016. Þá var Höskuldur Ólafsson, fyrrverandi bankastjóri Arion banka, fenginn inn sem stjórnarformaður félagsins á síðasta ári.