Erlent

Birtu myndband af flótta grunaðs morðingja

Kjartan Kjartansson skrifar
Casey White, 38 ára, og Vicky White, 56 ára, hurfu úr fangelsi í Alabama á föstudag. Þeirra er nú leitað en talið er að þau kunni að vera vopnuð og hættuleg.
Casey White, 38 ára, og Vicky White, 56 ára, hurfu úr fangelsi í Alabama á föstudag. Þeirra er nú leitað en talið er að þau kunni að vera vopnuð og hættuleg. AP

Yfirvöld í Alabama í Bandaríkjunum hafa birt myndband sem sýnir hvernig fangavörður hjálpaði fanga sem er grunaður um morð að sleppa úr fangelsi fyrir helgi. Talið er að þau hafi verið í nánu sambandi.

Casey White er grunaður um að hafa stungið konu til bana árið 2020. Ekkert hefur spurst til hans frá því að hann hvarf upp í bíl með Vicky White, fangaverði í fangelsinu þar sem honum var haldið, á föstudag. Parið er ótengd þrátt fyrir að bera sama eftirnafn. 

Upphaflega lék grunur á að fanginn kynni að hafa tekið fangavörðinn í gíslingu. Rannsakendur telja sig þó vita að þau hafi átt í nánu sambandi. Fangavörðurinn er átján árum eldri en fanginn.

White fangavörður hafði sagt upp starfi sínu og lét hún fangann hverfa síðasta vinnudag sinn í fangelsinu. Hún laug því að öðrum fangelsisvörðum að hún væri á leið með fangann í geðrannsókn,

Á myndbandinu sem lögregluyfirvöld birtu sést fangavörðurinn fylgja fanganum handjárnuðum út í bíl merktum lögreglustjóraembætti. Þau aka síðan í burt.

Handtökuskipun var gefin út á hendur Vicky White. Lögreglustjórinn í Lauderdale-sýslu segir að þau sé bæði álitin flóttamenn sem séu vopnaðir og hættulegir. Þau kunni að hafa aðgang að árásarriffli og haglabyssu.

Casey White játaði sig upphaflegan sekan af ákæru um að hafa banað konu á sextugsaldri í misheppnuðu innbroti. Hann dróf játningu sína síðar til baka og bar við geðveiki, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Þegar hann var ákærður fyrir morðið afplánaði hann 75 ára fangelsisdóm fyrir fjölda ofbeldisglæpa sem hann framdi árið 2015.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×