Körfubolti

Martin stoð­sendinga­hæstur er Valencia féll úr leik í undan­úr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin átti góðan leik í kvöld. Það dugði hins vegar ekki til.
Martin átti góðan leik í kvöld. Það dugði hins vegar ekki til. Mike Kireev/Getty Images

Íslenski landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson átti fínan leik er Valencia féll úr leik í EuroCup fyrir Virtus Bologna, lokatölur á Spáni 73-83.

Frábær fyrsti leikhluti lagði grunninn að sigri gestanna frá Ítalíu. Munurinn strax orðinn átta stig þar og reyndist það of stór biti fyrir Valencia. Í raun var sóknarleikur Valencia í lamasessi allan leikinn en liðið skoraði mest 19 stig í leikhluta.

Það virtist þó sem heimamenn hefðu fundið lausnina í upphafi síðari hálfleiks en sóknarleikur gestanna var hvorki fugl né fiskur í þriðja leikhluta. Bologna skoraði aðeins 12 stig á þeim kafla en það kom ekki að sök á endanum þar sem liðið beit frá sér í fjórða leikhluta, lokatölur 73-83 og Valencia úr leik.

Martin spilaði rúmlega 22 mínútur, gaf sjö stoðsendingar, skoraði fimm stig og tók eitt frákast. Enginn leikmaður vallarins gaf fleiri stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×