Erlent

Þrisvar sinnum fleiri látist af Covid-19 en tilkynnt var um

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karlmaður á Indlandi með súrefnisgrímu. Hvergi hafa fleiri látist vegna veirunnar en þar í landi.
Karlmaður á Indlandi með súrefnisgrímu. Hvergi hafa fleiri látist vegna veirunnar en þar í landi. Getty

Tæplega fimmtán milljón manns hafa látið lífið vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þetta er niðurstaða Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem birti skýrslu sína í dag.

Stofnunin telur að fjölmörg lönd hafi vantalið fjölda látinna vegna Covid en tilkynnt andlát undanfarin rúm tvö ár nema aðeins 5,4 milljónum manna.

Talið er að 4,7 milljónir hafi látið lífið á Indlandi vegna Covid sem er tíföld opinber dánartala og um leið tæplega þriðjungur allra látinna í heiminum vegna veirunnar.

Ríkisstjórn Indlands dregur niðurstöðu WHO í efa og telur aðferðarfræðina sem beitt var orka tvímælis. Aðrar rannsóknir á fjölda látinna á Indlandi hafa þó komist að sambærilegri niðurstöðu.

Samkvæmt niðurstöðu WHO voru 57 prósent látinna karlar og 43 prósent konur.

Aðferðarfræði WHO byggir á því að skoða hve miklu fleiri létu lífið á sömu slóðum og á árunum fyrir faraldurinn. Þá taka útreikningarnir með í reikninginn óbein andlát af Covid svo sem fólk sem fékk ekki umönnun á sjúkrahúsi vegna álags. Sömuleiðis takmarkaðar skráningar á andlátum í fátækari löndum og takmarkaðar sýnatökur við upphaf faraldurins.

WHO segir þó stærstan hluta 9,5 milljóna andlátanna umfram opinberar tölur vera andlát sem rekja megi með beinum hætti til faraldursins.

Frétt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×