Íslenski boltinn

Margrét Lára: Ég er svo þreytt á því að horfa á þetta í íslenskum kvennafótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valskonur skoruðu öll mörk sín eftir fyrirgjafir á móti Keflavík þar af eitt þeirra beint úr fyrirgjöf.
Valskonur skoruðu öll mörk sín eftir fyrirgjafir á móti Keflavík þar af eitt þeirra beint úr fyrirgjöf. Vísir/Vilhelm

Margrét Lára Viðarsdóttir ræddi sérstaklega fyrirgjafir í íslenskum kvennafótbolta í Bestu mörkunum í gær.

Kveikjan var annað mark Valsliðsins í sigrinum á Keflavík en það skoraði Ída Marín Hermannsdóttir eftir sniðuga fyrirgjöf frá Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur.

„Sjáum Þórdísi hér senda boltann fyrir og mér finnst þetta alltaf svo skemmtileg mörk,“ sagði Helena Ólafsdóttir um leið og hún sýndi markið hjá Ídu.

„Ég er svo sammála þér Helena. Ég er svo þreytt á því að horfa á íslenskan kvennafótbolta og þessar fyrirgjafir sem eru að koma alltaf snemma inn í teiginn. Það er auðvelt fyrir varnarmenn að skalla frá og markmennirnir eins og Sonný Lára, elska þessa bolta,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir.

„Ég vil að leikmennirnir komist upp að endamörkum og komi með boltann út í teiginn,“ sagði Margrét.

„Þá er eiginlega ekki hægt að klúðra því,“ sagði Helena.

Klippa: Bestu mörk kvenna: Margrét Lára gefur góð ráð um fyrirgjafir

Þær sýndu síðan þriðja markið þar sem Ásdís Karen Halldórsdóttir komst upp að endamörkum og kom boltanum út í teiginn á Elínu Mettu Jensen sem skoraði.

„Sjáið. Komst upp að endamörkum og sendi boltann út í teiginn. Það er svo erfitt að verjast þessu. Markvörðurinn er stimplaður út og miðverðirnir báðir eru yfirleitt stimplaðir út,“ sagði Margrét Lára.

„Hlustið nú, hlustiði á Margréti,“ sagði Sonný Lára Þráinsdóttir, sérfræðingur í Bestu mörkunum.

Það má sjá þessa umfjöllun hér fyrir ofan sem og umfjöllunina um sigur Valsliðsins á toppliði Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×