Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Með aldrinum er orðið talsvert auðveldara að vakna og ég er komin á ról um klukkan sjö.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Morgunkossinn á eiginkonuna er með því fyrsta sem ég geri þegar ég vakna.“
Myndir þú einhvern tímann missa af Eurovision og hvað þurfum við helst að hafa í huga til að hámarka stemninguna í kvöld?
„Ég get alveg misst af Eurovision þó ég sé mikill aðdáandi keppninnar. Hins vegar er þetta mikið grill- og gleðikvöld í kringum mig og mína vini.
Við hittumst, öskrum yfir íslenska framlaginu og maður fær gæsahúð.
Veðbanki í samkvæminu er ómissandi, því sumir þykjast alltaf vita eftirá „æji ég vissi að þeir myndu vinna“ en þegar allt er skjalfest getur enginn sagt „sagði það!“ nema þá hreinlega hafa rétt fyrir sér.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Það er árshátíðarvertíð erlendis fram í júní. Við hjá Visitor ferðaskrifstofu erum með nokkrar risastórar árshátíðarferðir í gangi um þessar mundir og við erum mjög upptekin yfir því.
Þó svo að það sé svona mikið að gera ætla ég að skjótast til Íslands í sólarhring til þess að sprella með íslensku þjóðinni á Bylgjunni í þættinum mínum Veistu hver ég var.
Kem til landsins á hádegi og fer beint út aftur eldsnemma á sunnudagsmorgun.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég er með allt í fílófaxinu hahahaha.....nei nei, ég er mjög duglegur að nota dagbók og það hefur reynst mér best en svo er ég oft með alls kyns posti it miða, krassblöð og tossamiða og system sem ég skil og enginn annar.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég er kominn uppí yfirleitt um klukkan tíu og er kannski að fjara út um ellefu. Rúlla einhverju sjónvarpsefni í gang sem gott er að sofna við.“