Þegar fréttastofa ferðaðist vestur á land til að taka púlsinn á fólki fyrir sveitarstjórnarkosningar var sveitarstjórum og frambjóðendum mjög tíðrætt um þá uppbyggingu sem væri komin af stað á Vestfjörðum.
„Við tölum svolítið mikið um þetta. Þetta er skemmtilegt. Þetta hefur ekki gerst í þrjátíu ár. Svona uppbyggingarfasi hefur ekki verið hérna í þrjátíu ár, þannig að eðlilega er gaman að tala um það,“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar.
Á Ísafirði er verið að byggja 51 íbúð og þar af eru fjörutíu íbúðir fyrir nemendur og ellefu íbúðir fyrir tekjulága. Í Bolungarvík er verið að byggja tuttugu íbúðir, á Flateyri eru tuttugu stúdíóíbúðir í byggingu fyrir Lýðháskólann þar, og í Súðavík eru fimm íbúðir í byggingu.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðar, segir að það hafi verið fólksfækkun á svæðinu og ekkert verið byggt af nýju húsnæði á þessum stöðum í langan tíma. „Við sjáum að það er að vera viðsnúningur í því,“ segir Birgir.
Í Súðavík má svo gera ráð fyrir enn fleiri íbúðum á næstu árum vegna uppbyggingar á kalkþörungaverksmiðju sem ætlar að taka til starfa þar.

Tugir nýrra starfa í tengslum við kalkþörungaverksmiðju
Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segist gera ráð fyrir 35 til 45 störfum í tengslum við verksmiðjuna. Því sé ljóst að byggja þurfi íbúðir fyrir þetta fólk og það muni um slíkan fjölda í svo litlu sveitarfélagi.
„Heldur betur. Við erum að tala um þorp hér sem hýsir 175 kannski. Í prósentum talið, miðað við hlutfallið, þá er um gríðarlegt verkefni að ræða,“ segir Bragi Þór.

Í Bolungarvík er sömu sögu að segja en þar er fyrirséð að verði mikil fólksfjölgun á næstu árum með tilkomu laxasláturhúss og vaxtar í annarri starfsemi. „Það er mjög mikið framundan. Það er verið að skipuleggja nýtt hverfi sem við gerum ráð fyrir að þrjú hundruð manns geti flutt í á næstu árum. Við erum líka að skipuleggja nýjan miðbæ.“
Í Bolungarvík búa nú 956 manns. Jón Páll segir því ljóst að bærinn muni á næstu árum fara yfir þúsund manna markið sem stjórnvöld vilja miða við fyrir sveitarfélög.
„Bolungarvík, þúsund plús! Það er ekki hægt að hlæja að því núna,“ segir Jón Páll.