Innlent

Mikil ásókn í að greiða at­kvæði utan kjör­fundar

Eiður Þór Árnason skrifar
Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu. Vísir

Spennan magnast í kosningabaráttunni nú þegar innan við einn og hálfur sólarhringur er þar til landsmenn ganga að kjörborðinu. Fleiri hafa nú greitt atkvæði utan kjörfundar en fyrir síðustu kosningar og búist er við að fjölmargir greiði atkvæði á morgun.

Mikið var um að vera í Holtagörðum á sjöunda tímanum í kvöld þar sem fólki býðst að kjósa utan kjörfundar. Röð var inn á kjörstaðinn og hafa ekki fleiri mætt í Holtagarða á einum degi frá því að atkvæðagreiðsla hófst fyrir komandi kosningar. 

Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, segir að aðeins fleiri hafi greitt atkvæði utan kjörfundar fyrir þessar kosningar en á sama tíma fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fram fóru árið 2018.

„Kjörsókn er góð og frá því við opnuðum hjá okkur 15. apríl þá eru búnir að kjósa núna rúmlega 13.200 manns og á landinu öllu tæplega 21 þúsund,“ sagði hún í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

Þegar kjörstaðir lokuðu á þessum degi árið 2018 voru tæplega 10.900 búin að kjósa utan kjörfundar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Opið verður frá 10 til 22 í Holtagörðum á föstudag og til 17 á laugardag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×