Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kom í opinbera heimsókn til Grænlands í gær en heimsókninni lýkur á morgun. Í gær tók hún þátt í pallborðsumræðum um jafnréttismál í háskólanum í Nuuk og fyrir hádegi í dag átti hún fund með Múte Bourup Egede forsætisráðherra Grænlands. Hún fundaði síðar í dag með Naaja H. Nathanielsen fjármálaráðherra og öðrum ráðamönnum.
„Síðan erum við að fara í Loftlagsstofnun Grænlands þar sem við erum að kynna okkur málin. Erum í raun og veru að reyna að heimsækja sem flesta staði hér í þessari stuttu heimsókn," segir Katrín.
Íslendingar geti og eigi að hafa gott samstarf við nágranna sína á Grænlandi á sem flestum sviðum. Alþingi hafi samþykkt þingsályktunartillögu í þeim efnum í fyrra og það sé stefna ríkisstjórnarinnar. Ágætis skýrsla hafi verið unnin um þau mál.
„Grænlendingar hafa að sjálfsögðu sýnt loftslagsmálunum mikinn áhuga. Það eru auðvitað málefni norðurskautsins sem eru að færast æ nærri kjarna stjórnmálanna. Þar sem Grænlendingar eru auðvitað lykilfólk. Þannig að það eru ýmsir samstarfsmöguleikar. Síðan að sjálfsögðu jafnréttismálin sem ég tek alltaf upp hvar sem ég er,“ segir forsætisráðherra.
Umræðurnar um þau mál í háskólanum í Nuuk í gær hafi verið mjög djúpar og góðar. Þá eigi Íslendingar og Grænlendingar mikið samstarf í sjávarútvegsmálum, flugþjónustu og stjórnun flugumferðar, og vaxandi samskipti á sviði ferðaþjónustu og viðskipta.
Grænlendingar hafi verið mjög áberandi gestir á árlegu þingi Hringborðs norðurslóða í Reykjavík undanfarin ár og lagt þar mikið að mörkum.
„Þau eru að sjálfsögðu að láta til sín taka í þeim efnum. En þau eru ein þeirra þjóða þar sem loftslagsbreytingar birtast hvað áþreifanlegast. Þannig að það er þeim mjög ofarlega í huga,“ segir Katrín Jakobsdóttir.