Þessi slóvakíski fyrrum varnarmaður er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Liverpool, en hann var í rúm átta ár hjá félaginu.
Á ferli sínum lék hann einnig með liðum á borð við Zenit, Fenerbache, Atalanta, Istanbul Basaksehir og nú seinast Spartak Trnava í heimalandinu.
Skrtel sagði frá því að hann væri að leggja skóna á hilluna á blaðamannafundi hjá Spartak Trnava og sagði ástæðuna vera heilsufarslega.
„Með því að koma til Trnava upplifði ég drauminn minn. Ég held að þá ég sé kominn á þennan aldur geti ég samt hjálpað liðinu og spilað í hæsta gæðaflokki,“ sagði þessi 37 ára varnarmaður.
„En ástæðan fyrir því að ég er að hætta er heilsufarsleg. Ég er með æðakölkun (e. Plaques) og það heldur aftur að mér, bæði í fótboltanum og fjölskyldulífinu. Ég man ekki eftir þeim degi þar sem ég fann ekki fyrir sársauka. Ég hef æft með hjálp lyfja seinustu mánuði.“
„Ég átti í erfiðleikum með að ganga hundrað metra með syni mínum. Sársaukinn er nokkuð mikill. Ég finn mest fyrir þessu þegar ég hleyp, hoppa og lendi í samstuði, en það er eitthvað sem við þurfum á að halda í fótbolta. Þess vegna hef ég ákveðið að leikurinn á móti Dunajska verður minn síðasti. Ekki bara fyrir Spartak Trnava, heldur á ferlinum.“
„Ég get ekki ímyndað mér lífið án fótbolta, en nú er kominn tími til að fylgja huganum frekar en hjartanu. Ég á heilsuna bara einu sinni. Nú tekur borgaralegt líf við og ég vil geta notið þess á einhvern hátt án sársauka.“
Wishing you all the best in your retirement, Martin Škrtel ❤ pic.twitter.com/UMOgtruq5T
— Liverpool FC (@LFC) May 17, 2022
Á 21 árs löngum ferli sínum lék Martin Skrtel 487 deildarleiki, en þar af voru 242 fyrir Liverpool. Þá lék hann einnig 104 leiki fyrir slóvakíska landsliðið sem gerir hann að fjórða leikjahæsta leikmanni liðsins frá upphafi.