Fótbolti

Aubameyang sendi þjóð sinni kveðjubréf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar marki með Barcelona liðinu. Hann mun nú einbeita sér að spila fyrir félagslið.
Pierre-Emerick Aubameyang fagnar marki með Barcelona liðinu. Hann mun nú einbeita sér að spila fyrir félagslið. AP/Joan Monfort

Barcelona framherjinn Pierre-Emerick Aubameyang hefur spilað sinn síðasta landsleik fyrir Gabon.

Knattspyrnusamband Gabon gaf það út að leikmaðurinn hafi sett punkt aftan við landsliðsferilinn eftir þrettán ár með landsliðinu.

Sambandið birti bréf frá Aubameyang þar sem hann þakkaði gabonsku þjóðinni, þjálfurum sínum, liðsfélögunum og föður sínum sem spilaði einnig með landsliðinu á sínu tíma.

Aubameyang lék 72 landsleiki fyrir Gabon og er markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi með 30 mörk.

Gabon komst með hann innanborðs í átta liða úrslit í Afríkukeppninni 2012 sem er besti árangur liðsins á stórmóti.

Síðasta stórmót voru mikil vonbrigði fyrir Aubameyang sem fékk kórónuveiruna á leið sinni á mótið, sem smá stoppi í Dúbaí, og varð að draga sig út úr landsliðshópnum.

Aubameyang fékk sig lausan frá Arsenal í janúar eftir að hafa verið settur í frystikistuna á Emirates en samdi síðan við Barcelona þar sem hann skoraði 13 mörk í 22 leikjum á seinni hluta tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×