Körfubolti

Luka næstur á eftir Wilt og Jordan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luka skoraði 42 stig gegn Golden State Warriors á dögunum en tapaði samt.
Luka skoraði 42 stig gegn Golden State Warriors á dögunum en tapaði samt. Harry How/Getty Images

Slóveninn Luka Dončić er einstakur körfuboltamaður, á því leikur enginn vafi. Hann ásamt goðsögnunum Wilt Chamberlain og Michael Jordan eru þeir leikmenn sem hafa skorað flest stig í fyrstu 25 leikjum sínum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar frá upphafi.

Hvort hinn 23 ára gamli Dončić verði einhvern tímann í umræðunni yfir bestu körfuboltamenn allra tíma – líkt og Chamberlain og Jordan – á eftir að koma í ljós en hann er án efa einn besti leikmaður samtímans.

Lið hans – Dallas Mavericks – er sem stendur 2-0 undir gegn Golden State Warriors í úrslitum Vesturhluta NBA-deildarinnar. Það breytir því ekki að Luka hefur spilað hreint út sagt frábærlega og er nú kominn í hóp með goðsögnunum.

Þannig er mál með vexti að þetta eru einu þrír leikmenn í sögu NBA til að skora yfir 800 stig í fyrstu 25 leikjum sínum í úrslitakeppni deildarinnar. Dončić skoraði 42 stig í síðasta leik og er þar með búinn að skora 813 stig í fyrstu 25 leikjum sínum í úrslitakeppninni.

Hann er þó töluvert frá því að jafna met Michael Jordan sem skoraði 917 stig í 25 fyrstu leikjum sínum í úrslitakeppninni.

Dončić er eflaust lítið að pæla í þessu enda dugðu 42 stig hans í síðasta leik ekki til sigurs. Dallas þarf að finna leiðir til að koma fleiri leikmönnum á blað ásamt því að stöðva öflugt lið Golden State varnarlega.

Þriðji leikur liðanna er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 klukkan 01.00 á aðfaranótt mánudags.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×