Innlent

Framsókn og Sjálfstæðisflokkur mynda meirihluta í Suðurnesjabæ

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Suðurnesjabær varð til þegar Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður sameinuðist í eitt sveitarfélag.
Suðurnesjabær varð til þegar Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður sameinuðist í eitt sveitarfélag. Vísir/Vilhelm

D-listi Sjálfstæðismanna og óháðra og B-listi Framsóknarflokksins hafa komist að samkomulagi um samstarf í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar á komandi kjörtímabili.

Samkomulag þess efnis var undirritað í gær af bæjarfulltrúum beggja framboða.

Sjálfstæðisflokkurinn mun því halda áfram í meirihluta bæjarstjórnar en flokkurinn myndaði meirihluta með lista Jákvæðs samfélags árið 2018. Sá listi bauð ekki fram að þessu sinni.

Framsóknarflokkurinn bætti við sig einum fulltrúa og mun verða með tvo fulltrúa í bæjarstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn hélt sínum þremur.

Samstarf flokkanna mun byggja á stefnuskrám framboðanna. Lögð verður áhersla á gott samstarf allra kjörinna fulltrúa, starfsmanna sveitarfélagsins og bæjarbúa, að því er fram kemur í tilkynningu frá flokkunum sem send var fjölmiðlum í kvöld.

Einar Jón Pálsson, oddviti D-listans, verður forseti bæjarstjórnar og Anton Guðmundsson, oddviti B-listans, verður formaður bæjarráðs.

Stefnt er að því að boða til fyrsta fundar nýrrar bæjarstjórnar í næstu viku.

Svona fóru bæjarstjórnarkosningarnar:

  • B-listi Framsóknar: 18,9% með tvo fulltrúa, bætti við sig einum
  • D-listi Sjálfstæðisflokks og óháðra: 29,5% og áfram með þrjá fulltrúa
  • O-listi Bæjarlistans: 26,5% með tvo fulltrúa
  • S-listi Samfylkingar og óháðra: 21,5% með tvo fulltrúa

Tengdar fréttir

Framsókn sigurvegari á landsvísu

Framsóknarflokkur vann stórsigur í kosningum í gær víða um land, sérstaklega í kringum höfuðborgarsvæðið. Flokkurinn er í lykilstöðu þegar kemur að stjórnarmyndun í borginni eftir fall síðasta meirihluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×