Erlent

Segir börnin hafa grát­beðið um hjálp á meðan lög­reglan beið fyrir utan

Árni Sæberg skrifar
Steven McCraw, yfirmaður almannavarna Texas, hélt blaðamannafund í dag.
Steven McCraw, yfirmaður almannavarna Texas, hélt blaðamannafund í dag. Michael M. Santiago/Getty

Yfirmaður aðgerða lögreglu við grunnskóla í Texas þar sem nítján börn og tveir kennarar voru myrtir ákvað að aðhafast ekki neitt í tæplega fimmtíu mínútur á meðan árásarmaðurinn var inni í læstri skólastofu ásamt fórnarlömbum sínum.

„Hann var sannfærður um að börnin væru ekki lengur í hættu og að árásarmaðurinn hefði lokað sig af og þeir hefðu tíma til að skipuleggja sig,“ sagði Steven McCraw, yfirmaður almannavarna Texasfylkis, á blaðamannafundi í dag.

Á meðan árásarmaðurinn myrti börnin og kennarana inni í læstri kennslustofunni voru tæplega tuttugu lögreglumenn á ganginum fyrir utan í rúmlega 45 mínútur.

„Auðvitað var það ekki rétt ákvörðun. Það var röng ákvörðun,“ sagði McCraw.

Hann sagði að árásinni hefði ekki lokið fyrr en landamæraverðir opnuðu dyrnar að kennslustofunni með lykli og árásarmaðurinn var felldur. Þá var skaðinn skeður.

McCraw sagði að lögreglumenn á svæðinu hefðu heyrt mikinn fjölda skothvella skömmu eftir að árásarmaðurinn læsti sig inni í kennslustofunni og í kjölfarið hafi stöku hvellur heyrst í þær tæpu fimmtíu mínútur sem lögreglulið beið á ganginum fyrir utan.

„Sendið lögregluna strax“

Á meðan lögreglumenn stóðu á ganginum fyrir framan skólastofunna hringdu þau sem þar voru inni ítrekað í neyðarlínuna og grátbáðu um að lögreglumenn yrðu sendir þeim til bjargar.

„Sendið lögregluna strax“ hefur McCraw eftir ungri stúlku sem hringdi í neyðarlínuna. Þá segir hann að börnin hafi hringt og greint frá því hversu margir væru enn á lífi inni í stofunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×