Fótbolti

Valskonur unnu örugglega og Selfyssingar snéru taflinu við

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ásdís Karen Halldórsdóttir skoraði fyrsta mark Vals.
Ásdís Karen Halldórsdóttir skoraði fyrsta mark Vals. Vísir/Hulda Margrét

Öllum fimm leikjum dagsins í Mjólkurbikar kvenna er nú lokið, en seinustu tveim lauk nú rétt í þessu. Valskonur gerðu góða ferð norður og unnu 1-4 sigur gegn Tindastól og Selfyssingar unnu 3-1 sigur gegn Aftureldingu eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik.

Ásdís Karen Halldórsdóttir kom Valskonum yfir fyrir norðan strax á fimmtu mínútu leiksins áður en Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir tvöfaldaði forystu gestanna átta mínútum síðar.

Ekki var meira skorað í fyrri hálfleik og staðan því 0-2 þegar gengið var til búningsherbergja.

Ída Marín Hermannsdóttir breytti stöðunni í 0-3 á 65. mínútu, en Cyera Makenzie Hintzen gerði endanlega út um leikinn þegar hún skoraði fjórða mark Vals tuttugu mínútum fyrir leikslok.

Hugrún Pálsdóttir klóraði í bakkann fyrir heimakonur, en nær komust þær ekki og niðurstaðan því 1-4 sigur Vals. Tindastóll er því úr leik í Mjólkurbikarnum, en Valskonur eru á leið í átta liða úrslit.

Sömu sögu er að segja um Selfyssinga sem unnu 3-1 sigur gegn Aftureldingu. Hildur Karítas Gunnarsdóttir kom gestunum frá Mosfellsbæ yfir á 36. mínútu, en mörk frá Miröndu Nild, Brennu Lovera og Emblu Dís Gunnarsdóttur í síðari hálfleik tryggðu 3-1 sigur Selfyssinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×