Þetta sýna nýlegar tölur Seðlabanka Íslands um eignir fagfjárfestasjóða.
Í síðasta fjármálastöðugleikariti Seðlabankans, sem kom út um miðjan mars á árinu, var þessi þróun meðal annars gerð að umfjöllunarefni. Þar var bent á að aukin miðlun fjármagns utan hins hefðbundna bankakerfis væri til marks um meiri fjölbreytni á lánsfjármörkuðum og gæti verið til þess fallin að auka áhættu dreifingu og minnka samþjöppun.
„Þessi þróun getur þó einnig verið birtingarmynd breytts háttalags sem felur í sér að fjármálaleg starfsemi leitar á vettvang sem lýtur slakara eftirliti og reglum en til dæmis viðskiptabankarnir,“ sagði í ritinu. Skuldir fyrirtækja við verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóði nema nú um 8,4 prósentum af heildarskuldum fyrirtækja við innlenda fjármálakerfið og fer hlutur þeirra vaxandi.
Mikil aukning var í útlánum fagfjárfestasjóða til fyrirtækja á árinu 2021, einkum á seinni helmingi ársins, samhliða því að útlánavöxturinn var nánast enginn í bankakerfinu. Sú staða hefur breyst nokkuð á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs, þar sem ný lán bankanna til fyrirtækja eru samanlagt um 80 milljarðar króna, meira en sem nemur öllum nýjum lánum þeirra til atvinnulífsins á árinu 2020 og 2021.
Sú breyting sem varð á landslaginu á lánamarkaði frá og með árinu 2019 hélst í hendur við hækkandi vaxtaálag á fyrirtækjalánum í bankakerfinu samhliða því að lágt vaxtastig ýtti fjármagni úr öruggari fjárfestingarkostum, eins og innlánum og ríkisskuldabréfum, yfir í áhættusamari eignir. Mörg fyrirtæki hafa nýtt sér þessar hagfelldari markaðsaðstæður til að endurfjármagna skuldir sínar, meðal annars með útgáfu skuldabréfa eða lántöku hjá fagfjárfestasjóðum.
Í Fjármálastöðugleika Seðlabankans er nefnt að vaxandi útlán fagfjárfestasjóða til endurspegli að hluta aukið flæði nýs lánsfjár til fyrirtækja en einnig tilfærslu lánsfjármögnunar frá öðrum lánveitendum til sjóðanna.
„Þessi tilfærsla felst annars vegar í endurfjármögnun fyrirtækja á eldri lánum með nýjum lántökum hjá sjóðunum og hins vegar í beinni tilfærslu útlána milli aðila þar sem sjóðir kaupa þegar veitt útlán af öðrum lánveitendum. Meira en helming aukningar í útlánum sjóðanna á síðastliðnu ári má rekja til fárra stórra lánasamninga sem gerðir voru vegna endurfjármögnunar á eldri lánsfjármögnun, meðal annars bankalánum,“ að því er segir í riti Seðlabankans.
Til viðbótar við fjármögnun í gegnum fagfjárfestasjóði – sem eru þá lána- og veðskuldabréfasjóðir – hefur einnig mátt merkja talsverða aukningu í skuldabréfaútgáfum fyrirtækja á markaði en hvoru tveggja hefur vegið á móti þeim samdrætti sem var 2020 og fram eftir árinu 2021 í fyrirtækjaútlánum bankakerfisins.
Fasteignafélög og orkuveitur hafa að undanförnu staðið að baki þorra útgáfna fyrirtækjaskuldabréfa en á síðasta ári voru útgáfur fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum, að sögn Seðlabankans, svo sem í sjávarútvegi og þjónustugeira einnig áberandi. Sem fyrr eru það fyrst og fremst stór fyrirtæki sem eiga kost á að fjármagna sig á markaði með útgáfu skuldabréfa.
Til marks um þá þróun má sjá í bókum lífeyrissjóða að eignir þeirra í markaðsskuldabréfum fyrirtækja hafa farið stöðugt vaxandi á síðustu misserum. Frá því í ársbyrjun 2020 nemur aukningin tæplega 80 milljörðum króna, eða liðlega 26 prósentum, en eignir sjóðanna í slíkum bréfum voru um 378 milljarðar króna í lok mars á þessu ári.
Álag fyrirtækjaskuldabréfa ofan á áhættulausa vexti fór lækkandi haustið 2020 samtímis vaxandi ásókn fjárfesta og lífeyrissjóða í fyrirtækjabréf. Það ýtti við mörgum fyrirtækjum að skoða aðra valkosti en hefðbundna bankafjármögnun.
Í þessu umhverfi hafa sprottið upp margir fagfjárfestasjóðir sem fjárfesta í skuldabréfum og lánum til fyrirtækja, einkum með veði í fasteignum og fastafjármunum. Þannig hafa meðal annars Kvika eignastýring og Stefnir komið á fót stórum lánasjóðum – ACF III og SÍL – og Íslandssjóðir lokuðu einnig fyrir skemmstu nýjum 15 milljarða króna lánasjóði. Verðbréfafyrirtækið Arctica Finance var einnig að vinna í því fyrr á árinu að klára fjármögnun á 10 milljarða króna slíkum sjóði og sama á við um Glym eignastýringu, sem er stýrt af Guðmundi Björnssyni, en sjóðastýringarfyrirtækið áformaði að koma upp um 5 milljarða króna lánasjóði.
Í síðustu Peningamálum Seðlabankans, sem komu út fyrr í þessum mánuðum, kemur meðal annars fram að sum af stærri fyrirtækjum landsins hafi nýtt sér betra aðgengi að fjármagni og lægri vexti til endurfjármögnunar á hagstæðari kjörum enda þótt vaxtaálag á ný útlán í bankakerfinu hafi almennt heldur hækkað. Frá og með 2019 fór vaxtaálag bankanna á fyrirtækjalán hratt vaxandi en á síðustu misserum hefur það haldist í kringum 4 prósent miðað við meginvexti Seðlabankans, sem standa núna í 3,75 prósentum eftir að hafa hækkað skarpt síðustu mánuði.
Sú þróun stafar meðal annars að því að sumir bankar, einkum Arion, gerðu breytingar á viðskiptamódeli sínu og fóru að leggja meiri áherslu á arðsemi í útlánum sínum til fyrirtækja fremur en að elta markaðshlutdeild. Í tilfelli Arion banka hefur hann því í meira mæli farið að starfa sem milliliður við lánveitingar í samstarfi við fjárfesta og aðra banka í stað þess að nýta eingöngu eigin efnahagsreikning til að veita lán.
Bankarnir auka á ný útlán til fyrirtækja
Stöðug útlánaaukning bankanna til atvinnulífsins á allra síðustu mánuðum, meðal annars til byggingargeirans, endurspeglar aukinn fjárfestingarvilja fyrirtækja eftir faraldurinn og þá segjast æ fleiri fyrirtæki skorta starfsfólk og erlendu vinnuafli fjölgar sömuleiðis hratt.
Í Peningamálum Seðlabankans fyrr í þessum mánuði kom fram að könnun bankans á fjárfestingaráformum fyrirtækja sem framkvæmd var í febrúar og mars á þessu ári bendi til þess að þau áformi að auka við fjárfestingu sína í ár um liðlega 30 prósent að nafnvirði frá fyrra ári. Það er mun meiri aukning fjárfestingarútgjalda en kom fram í samsvarandi könnun Seðlabankans frá því í september. Niðurstöðurnar eru sagðar gefa til kynna að vöxtur verði í flestum atvinnugreinum en framlag fjármunamyndunar í ferðaþjónustu og flutningastarfsemi vegur þar hvað þyngst.