Fótbolti

Ánægð með nýju kynslóðina: „Eitthvað sem maður hefur beðið eftir í nokkur ár“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og Caroline Seger í leik Íslands og Svíþjóðar á Laugardalsvelli 2019.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Caroline Seger í leik Íslands og Svíþjóðar á Laugardalsvelli 2019. Vísir/Vilhelm

Sara Björk Gunnarsdóttir er afar sátt með hvernig aldamótabörnin svokölluðu hafa komið inn í íslenska landsliðið.

Árið 2020 komu nokkrir ungir og bráðefnilegir leikmenn inn í landsliðið. Má þar nefna Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, Alexöndru Jóhannsdóttur, Sveindísi Jane Jónsdóttur. Síðan hefur hin átján ára Amanda Andradóttir bæst við.

„Þetta er alvöru kynslóð og eitthvað sem maður hefur beðið eftir í nokkur ár. Það eru margir X-faktorar í þessu liði,“ sagði Sara í samtali við Vísi í þarsíðasta mánuði.

Klippa: Sara um nýju kynslóðina í landsliðinu

Sara segir að þrátt fyrir ungan aldur séu áðurnefndir leikmenn komnir mjög langt og fyrir löngu byrjaðir að leggja inn í reynslubankann.

„Þetta eru ungir leikmenn en samt leikmenn sem eru komnir með reynslu strax og spilað marga leiki í landsliðinu. Hvort sem þær eru í byrjunarliðinu, á bekknum eða utan hóps eru þær kannski að spila með félagsliði í betri deildum. Það gefur svo ótrúlega mikið,“ sagði Sara.

Öfugt við aldamótabörnin, sem eru á leið á sitt fyrsta stórmót, verður Evrópumótið í Englandi í júlí fjórða stórmót Söru. Hún hefur leikið alla tíu leiki Íslands á Evrópumóti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×