Fótbolti

Di Maria leggur landsliðsskóna á hilluna eftir HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ángel Di María er fjórði leikjahæsti leikmaður argentínska landsliðsins frá upphafi.
Ángel Di María er fjórði leikjahæsti leikmaður argentínska landsliðsins frá upphafi. DAX Images/BSR Agency/Getty Images

Argentínski knattspyrnumaðurinn Ángel Di María ætlar sér að leggja landsliðsskóna á hilluna eftir heimsmeistaramótið sem fram fer í Katar í lok þessa árs.

Þessi 34 ára leikmaður greindi sjálfur frá tíðindunum á blaðamannafundi argentínska landsliðsins í gær. Argentína mætir Ítalíu á Wembley á morgun í hálfgerðu uppgjöri Suður-Ameríkumeistaranna og Evrópumeistaranna sem kallast Finalissima.

Di María á að baki 121 leik fyrir argentínska landsliðið sem gerir hann að fjórða leikjahæsta leikmanni liðsins frá upphafi. Í þessum leikjum hefur hann skorað 24 mörk, en aðeins sex leikmenn hafa skorað fleiri mörk fyrir liðið.

„Eftir þetta heimsmeistaramót er minn tími kominn,“ sagði Di María.

„Það er fullt af ungum leikmönnum sem geta spilað með landsliðinu og þeir eru smátt og smátt að verða betri og munu sýna að þeir geta spilað á þessu stigi.“

Ángel Di María hefur leikið með franska stórveldinu PSG frá árinu 2015, en er á förum frá félaginu í sumar. Hann hefur þó ekki enn ákveðið hvar hann mun spila á næsta tímabili.

Á ferli sínum hefur leikmaðurinn einnig leikið með liðum á borð við Manchester United, Real Madrid og Benfica.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×