Þrátt fyrir að hafa meiðst síðasta mánudag þarf Martin ekki að bíða eftir því að komast í aðgerð og það ætti að hjálpa honum að komast fyrr af stað aftur, þó að það verði ekki fyrr en í byrjun næsta árs.
„Ég fer í aðgerðina strax á mánudaginn og það er lúxus við að vera hérna að geta gengið strax inn í aðgerð,“ segir Martin í samtali við Vísi.
Martin reiknar með því að vera áfram í Valencia í 2-3 vikur eftir aðgerðina en koma svo heim í sumarfrí til Íslands. Læknirinn sem sér um Martin er enginn aukvisi:
„Ég er með lækni sem hefur verið einkalæknir [spænsku tennisstjörnunnar] Rafaels Nadal, þannig að hann er eins góður og þeir verða. Ég treysti honum fullkomlega fyrir þessu. Svo er framhaldið svolítið óráðið,“ segir Martin.
„Ég verð hérna eitthvað aðeins áfram fram eftir sumri en svo er planið að koma heim til Íslands í smáslökun. En maður mun ekkert stoppa, litlu skrefin verða enn styttri núna og ég er bara spenntur fyrir því. Mér finnst gaman að æfa og vinna í sjálfum mér og líkamanum, og þetta er bara eins og hver önnur áskorun,“ segir Martin.