Stjarnan jafnaði Val að stigum á toppi Bestu deildar kvenna í fótbolta með afar sannfærandi 5-0 sigri sínum þegar liðið fékk Þór/KA í heimsókn á Samsung-völlinn í áttundu umferð deildarinnar í dag.
Valur heldur toppsætinu þar sem Hlíðarendakonur hafa 15 mörk í plús en Stjarnan er með hagstæða markatölu upp á níu mörk eftir þennan sigur. Valsliðið á hins vegar leik til góða en liðið leikur við Aftureldingu annað kvöld.
Það var Gyða Kristín Gunnarsdóttir sem skoraði fyrstu tvö mörk Stjörnunnar en bæði mörk hennar komu í fyrri hálfleik. Stjörnuliðið fékk raunar óskabyrjun í leiknum en Gyða Kristín koma heimakonum yfir strax á fjórðu mínútu leiksins.
Gyða Kristín lék þá inn í vítateiginn og setti boltann í nærhornið. Hún tvöfaldaði svo forystu Stjörnunnar á 10. mínútu en Katrín Ásbjörnsdóttir sendi þá góða sendingu inn á vítateiginn og Gyða Kristín kláraði færið af stakri prýði.
Leikmenn Stjörnunnar höfðu öll völd á vellinum í þessum leik og héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik. Arna Dís Arnþórsdóttir bætti þriðja marki Stjörnuliðsins við eftir um það bil tíu mínútna leik í þeim seinni.
Jasmín Erla Ingadóttir jók síðan á eymd Þórs/KA þegar hún setti fjórða mark Stjörnunnar á 70. mínútu leiksins. Jasmín Erla var þá eins og gammur og kom sér á blað með skoti af stuttu færi.
Síðasti naglinn í líkkistu Þórs/KA kom síðan þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Arna Dís skoraði þá sitt annað mark í leiknum og lagaði markatölu Stjörnunnar ennn frekar.
Þór/KA hefur farið verr af stað í sumar en búist var við en liðið hefur níu stig eftir átta leiki og situr í sjöunda sæti deildarinnar.

Kristján: Ánægðastur með hversu rólegir leikmenn voru
„Ég er sáttastur við hversu yfirvegaðir leikmenn voru og hversu vel okkur gekk að sækja í þau svæði sem við lögðum upp með að gera í þessum leik. Það var greinilegt að sú pressa að vera komin í toppbaráttu hafði engin áhrif á leikmenn mína," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
„Það er greinilegt að það er ekki sama stress í leikmönnum og þjálfurum. Þær nálguðust verkefnið af mikilli fagmennsku. Ég var sáttastur við hvað liðið er orðið þroskað og stóð sig vel í þessu prófi," sagði Kristján enn fremur.
„Við erum bara að safna konfektmolum og sjá svo hverju það skilar okkur í haust. Við erum ekkert að spá í neinni toppbaráttu eða farin að leiða hugann að því að við séum í baráttu um einhvern titil," sagði hann sposkur á svip.
Perry McLachlan: Virkuðum þreyttar í þessum leik
„Það var ekki mikil orka í okkar liði og leikmenn virkuðu þreyttir. Það fór allur vindur úr okkur eftir að við lentum tveimur mörkum undir strax í upphafi leiks og við komumst aldrei á flug í leiknum," sagði Perry John James Mclachlan, þjálfari Þórs/KA.
„Við getum ekki skýlt okkur bakvið leikjaálag þar sem við erum í sömu stöðu og önnur lið í deildinni hvað leikjafjölda varðar. Það var hins vegar áberandi í þessum leik hvað Stjarnan hafði mun meiri kraft í sínum aðgerðum en við," sagði hann þar að auki.
„Þetta eru hræðileg úrslit og við verðum að gera mun betur í næstu leikjum. Það býr mun meira í þessu liði en þessi frammistaða sýnir og vonandi náum við að sýna okkar rétta andlit í komandi leikjum," sagði Perry um framhaldið.

Af hverju vann Stjarnan?
Stjarnan bæði hélt betur í boltann og var mun beittari í sóknaraðgerðum sínum. Þær voru mun ákveðnari í öllum sínum aðgerðum bæði í varnar- og sóknarleiknum. Það var í raun aldrei spurning eftir fyrsta mark Stjörnunnar hvoru megin sigurinn myndi lenda.
Hverjar sköruðu fram úr?
Auk þess að skora tvö mörk var Gyða Kristín góður uppspilspunktur og kom sér í fjölmörg færi til þess að fullkomna þrennu sína. Arna Dís Arnþórsdóttir dró svo fram markaskó sína í þessum leik.
Katrín Ásbjörnsdóttir var í því hlutverki í dag að mata samherja sína með góðum sendingum. Þá var Betsy Hassett síógnandi á hægri vængnum.
Ingibjörg Lucia Ragnarsdóttir var drjúg inni á miðsvæðinu og Málfríður Erna Sigurðardóttir sá til þess að engin hætta skapaðist í þau fáu skipti sem Þór/KA sótti af einhverjum krafti.
Hvað gerist næst?
Næstu verkefni liðanna eru í Mjólkurbikarnum en Stjarnan heldur þá til Vestmannaeyja og mætir ÍBV og Þór/KA etur kappi við Selfoss. Þeir leikir fara fram á föstudaginn kemur. Stjarnan sækir Keflavík heim suður með sjó í næstu umferð deildarinnar á þriðjudaginn í næstu viku. Þór/KA fær KR í heimsókn sama kvöld.