Körfubolti

Á radarnum hjá Golden State en útilokar ekki að koma heim

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jón Axel vonast eftir að komast að vestanhafs en útilokar ekki heimkomu.
Jón Axel vonast eftir að komast að vestanhafs en útilokar ekki heimkomu. VÍSIR/BÁRA

Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður Íslands í körfubolta, segist vilja útiloka alla möguleika erlendis áður en hann íhugi að koma heim í Subway-deildina. Hann var nálægt því að skrifa undir hjá uppeldisfélagi sínu, Grindavík, fyrr í sumar, en stefnir nú á Sumardeild NBA.

Jón Axel hefur töluvert verið orðaður við heimkomu í Subway-deildina eftir strembinn vetur erlendis. Hann spilaði fyrri hluta nýliðins tímabils með Fortitudo Bologna á Ítalíu og hjá Crailsheim Merlins í Þýskalandi eftir áramót.

„Það eru mörg íslensk lið búin að heyra í mér en ég er búinn að segja það sama við alla – ef ég kem til Íslands er tekin ákvörðun um það í júlí.“ segir Jón Axel í samtali við Vísi.

„Ég var nálægt því að skrifa undir hjá Grindavík þegar ég kom heim þar sem það var alveg heillandi að koma heim og núllstilla sig eftir erfitt tímabil. En eftir samtal við fjölskylduna mína, umboðsmanninn og konuna þótti mér betra að slaka á og bíða og sjá.“ segir Jón Axel sem segir jafnframt að hann vilji sjá hvað er í boði erlendis áður en hann komi heim.

Hann segir að einhverjar þreifingar hafi átt sér stað við erlend lið og að Golden State Warriors í NBA-deildinni hafa sýnt því áhuga að fá hann til æfinga.

„Akkúrat núna er eitthvað í gangi hjá Golden State,“ segir Jón Axel. „Umboðsmaðurinn minn sagði mér að Golden State væri mjög spennt yfir því að fá mig til að koma og æfa hjá þeim.“

Mögulegt er því að hann fari í æfingabúðir hjá Golden State og spili þá jafnvel með liðinu í Sumardeild NBA. Jón Axel spilaði með Phoenix Suns í Sumardeildinni í fyrra.

Golden State var á meðal NBA-liða sem Jón Axel átti í viðræðum við árið 2020, eftir að hann kláraði háskólaferil sinn með Davidson-háskólanum vestanhafs. Hann var þá skráður í nýliðaval NBA-deildarinnar en var ekki valinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×