Körfubolti

Nýr þjálfari Lakers opin­berar að hann var skotinn í and­litið sem táningur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Darvin Ham, nýráðinn þjálfari Los Angeles Lakers.
Darvin Ham, nýráðinn þjálfari Los Angeles Lakers. Harry How/Getty Images

Darvin Ham tók við sem aðalþjálfari Los Angeles Lakers, eins sögufrægasta íþróttaliðs allra tíma, á dögunum. Á sínum fyrsta blaðamannafundi sem þjálfari liðsins opinberaði hann skelfilega lífsreynslu frá því hann var aðeins 14 ára gamall.

Ham er þekkt stærð innan NBA-deildarinnar eftir að hafa leikið í deildinni frá árinu 1996 til 2005. Hann varð meistari með Detroit Pistons árið 2004 er liðið lagði Lakers í úrslitum.

Hinn 48 ára gamli Ham hefur sinnt hlutverki aðstoðarþjálfara síðan skórnir fóru á hilluna. Meðal annars hjá Lakers frá 2011 til 2013 og Milwaukee Bucks á síðustu leiktíð er liðið varð meistari. Hann er nú snúinn aftur til Englaborgarinnar.

Ræddi Ham við blaðamenn á sínum fyrsta opinbera blaðamannafundi sem þjálfari Lakers. Þar kom í ljós að hann er í raun heppinn að vera enn á meðal vor. Aðspurður hvernig hann myndi höndla þá pressu sem fylgir því að vera aðalþjálfari Lakers þá var svarið frekar einfalt:

„Ég var óvart skotinn í andlitið þann 5. apríl 1988. Þegar þú lendir í slíku atviki þá mun það gera eitt af tvennu. Það mun gera þig óttasleginn eða óttalausan. Það gerði mig óttalausan, ég finn ekki fyrir pressu. Þetta er bara körfubolti.“

Þjálfarinn ræddi ekki atvikið nánar en það verður vægast sagt forvitnilegt að sjá hvernig Lakers stendur sig undir styrkri handleiðslu Ham í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×