Körfubolti

LeBron vill eiga lið í Vegas

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lebron James er einn frægasti íþróttamaður allra tíma.
Lebron James er einn frægasti íþróttamaður allra tíma. EPA-EFE/ETIENNE LAURENT

Það virðist sem LeBron James sé farinn að huga að því hvað hann geri þegar körfuboltaskórnir fara upp í hillu. Hann vill nefnilega eiga lið í NBA-deildinni og það á að vera staðsett í Las Vegas.

LeBron hefur undanfarin ár verið að færa út kvíarnar utan vallar og gefið ýmsar vísbendingar um hvað hann vilji gera eftir að skórnir fara á hilluna. Áður en það gerist þá hefur hann staðfest að honum langi að spila með syni sínum, Bronny James, allavega eitt tímabil í deildinni.

Hinn 37 ára gamli LeBron er farinn að framleiða kvikmyndir og sjónvarpsþætti með félaga sínum Maverick Carter en þeir halda einnig úti þættinum The Shop. Í nýjasta þættinum kom í ljós hvað LeBron vill gera þegar hann verður eldri.

„Ég vill eiga lið. Já ég vill kaupa lið, það er öruggt. Ég vil eiga lið áður en ég fer að blaðra. Ég vil að liðið sé í Vegas.“

LeBron er samningsbundinn Lakers út næstu leiktíð en liðið getur boðið honum tveggja áras samning í haust. Það er svo nú orðið ljóst hvað hann vill gera eftir að ferlinum lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×