Philipps, sem sérhæft hefur sig í umfjöllun um Amason-svæðið var á ferð á svæðinu ásamt Bruno Pereira, sérfræðingi í málefnum ættbálka svæðisins. Ekkert hefur sést til þeirra síðan á sunnudag.
Eftir að hafa farið hægt af stað í leitinni hefur aukinn kraftur verið settur í leitina. Það hefur skilað sér í því að blóðslettur fundust á báti manns sem handtekinn hefur verið í tengslum við leitina.
Þá segist lögregla nú hafa fundið mögulegar líkamsleifar í á við bæinn Atalaia do Norte, þar sem þeir félagar voru á ferð. Hið lífræna efni verður rannsakað og greint í von um að það geti varpað frekara ljósi á hvarf mannanna tveggja.
Hópar sem berjast fyrir réttindum ættbálka svæðisins hafa sagt að Phillips og Pereira hafi fengið hótanir í vikunni áður en þeir hurfu.
Yfirvöld í Brasilíu segjast vonast til þess að hægt sé að finna þá á lífi.