Innlent

Stefnir í metár í umferðinni á hringveginum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hringvegurinn liggur meðal annars um Hvalfjarðargöng.
Hringvegurinn liggur meðal annars um Hvalfjarðargöng. Vísir/Vilhelm.

Vegagerðin reiknar með að árið í ár verði metár þegar kemur að umferð á hringveginum Aldrei hefur mælst meiri umferð í maí en í síðastliðnum maí-mánuði.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar þar sem lesa má að umferð á hringveginum hafi aukist um tíu prósent í maí, umferðin hafi aldrei áður mælst jafn mikil í maí-mánuði.

Þannig var samanlögð meðalumferð á dag í maí 96.401 bíll, talið á sextán lykilteljurum víðs vegar um hringveginn. Fyrra met var sett í maí 2019, þegar meðal umferðin mældist 90.353 bílar á dag.

Vegagerðin

Vegagerðin segir að reikna megi með að heildarumferð áhringveginum í ár aukist um þrjú prósent.

Frá áramótum hefur umferðin nú aukist um 3,1 prósent sé hún borin saman við sama tímabil á síðasta ári.

Vegagerðin

Gangi þessar horfur eftir endar heildaraukningin í nýju umferðarmeti, eða svo til á pari við umferðina árið 2018 og rúmu einu prósenti yfir metárinu 2019.

Mest hefur umferð aukist um Austurland eða um 29,2 prósent. Umferð hefur dregist saman í kringum höfuðborgarsvæðið eða um 1,4 prósent frá áramótum miðað við sama tímabil á síðasta ári.

Vegagerðin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×