Körfubolti

Minnti alla á af hverju hann var valinn fyrstur í ný­liða­valinu á sínum tíma

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andrew Wiggins kom, sá og sigraði í nótt.
Andrew Wiggins kom, sá og sigraði í nótt. Jed Jacobsohn/Getty Images

Það má segja að hetja Golden State Warriors gegn Boston Celtics í nótt hafi í senn verið óvænt en samt ekki. Andrew Wiggins steig upp og sá til þess að Stríðsmennirnir eru nú aðeins einum sigri frá því að tryggja sér NBA meistaratitilinn.

Hinn 27 ára gamli Wiggins var valinn fyrstur í nýliðavalinu árið 2014. Cleveland Cavaliers völdu hann en skiptu honum strax til Minnesota Timberwolves. Þar var hann hluti af liði sem var ekki beint líklegt til afreka en hann var samt valinn nýlið ársins.

Þegar Wiggins skipti svo yfir til Golden State árið 2020 var liðið í ákveðinni niðursveiflu eftir frábær ár þar á undan. Wiggins hefur hins vegar blómstrað í vetur, var valinn í stjörnuleikinn og er nú stór ástæða þess að Golden State er einum sigri frá því að endurheimta titilinn sem liðið vann þrisvar frá 2015 til 2018.

Hann var allt í öllu er Stríðsmennirnir unnu tíu stiga sigur á Boston Celtics í nótt 104-94. Þar af skoraði Wiggins 26 stig ásamt því að taka 13 fráköst. 

Ef ekki hefði verið fyrir ótrúlega þriggja stiga körfu Jordan Poole er flautan gall í lok þriðja leikhluta hefði troðsla Wiggins eflaust orðið fyrir valinu.

„Ég er bara að reyna gera allt til að vinna. Hvort sem það er að skora, taka fráköst eða spila vörn þá er ég tilbúinn að gera hvað sem ég er beðinn um út á velli ef það hjálpar liðinu að vinna,“ sagði Wiggins að leik loknum.

Nýverið talaði Wiggins um virðinguna sem felst í því að vinna titla í NBA. Hann nefndi sem dæmi að það væri hægt að spila vel en ef þú ert ekki að vinna leiki þá gefur þér enginn þá virðingu sem þú telur þig eiga skilið.  Wiggins er nú á góðri leið með að fá þá virðingu sem hann á skilið. 


Tengdar fréttir

Stríðs­mennirnir einum sigri frá sigri í NBA deildinni

Golden State Warriors lagði Boston Celtics með tíu stiga mun í fimmta leik liðanna í úrslitaeinvígi NBA deildarinnar í körfubolta. Lokatölur í nótt 104-94 sem þýðir að Golden State er 3-2 yfir í einvíginu og aðeins einum sigri frá því að landa NBA meistaratitlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×