Seðlabankinn kynnti í gær aðgerðir til að bregðast við ofþenslu á fasteignamarkaði þar sem gríðarleg umframeftirspurn hefur verið síðustu misseri, sem hefur svo valdið sögulegum verðhækkunum. Þannig var hámarki á fasteignalánum fyrstu kaupenda lækkað úr 90 prósentum í 85 prósent. Þá voru sett ákveðin lágmarksviðmið sem fjármálastofnanir þurfa nú að nota við útreikning fasteignalána, einkum verðtryggðra lána svo lántakendur átti sig betur á áhættu sem fylgir því að taka slík lán. Þarna var bankinn að bregðast í fyrsta skipti við heimild sem hann fékk með reglum í fyrra um hámark greiðslubyrðar í hlutfalli við tekjur neytenda.
Fram hefur komið gagnrýni á að Seðlabankinn hafi átt að bregðast fyrr við þar sem þessi heimild var til staðar síðasta haust. Gunnar Jakobsson varabankastjóri fjármálastöðuleika Seðlabankans segir auðvelt að vera vitur eftir á.
„Ef ég hefði vitað í september í fyrra það sem ég veit í dag og að myndum til dæmis hafa stríð í Úkraínu þá er vissulega hægt að segja að við hefðum átt að grípa til aðgerða fyrr. En í september í fyrra vissum við það ekki,“ segir hann.
Hann útilokar ekki frekari inngrip á fasteignalánamarkað haldi verð áfram að hækka.
„Við munum halda áfram að fylgjast með þróuninni á fasteignamarkaði og þróuninni í heild og beita þeim tækjum sem við höfum eins og tilefni gefst til,“ segir Gunnar.