Körfubolti

Álfta­nes safnar liði: Dúi Þór kynntur til leiks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kjartan Atli og Dúi Þór handsala samninginn.
Kjartan Atli og Dúi Þór handsala samninginn. Álftanes

Leikstjórnandinn Dúi Þór Jónsson er genginn til liðs við Álftanes sem leikur í 1.deild karla í körfubolta á komandi leiktíð. Dúi Þór gengur til liðs við Álftnesinga frá Þór Akureyri sem lék í Subway-deild karla á síðustu leiktíð.

Dúi Þór kemur til að með að styrkja lið Álftanes gríðarlega en hann var í öðru sæti yfir þá leikmenn sem gáfu flestar stoðsendingar í Subway-deildinni á síðustu leiktíð, gaf hann 7,6 stoðsendingar í leik og skoraði að auki um 15 stig að meðaltali í leik.

Var leikstjórnandinn valinn í 26 manna landsliðshóp Íslands sem æfði í síðustu viku. Hluti hópsins fór svo áfram í lokahóp landsliðsins fyrir mikilvæga leiki í undankeppni HM.

„Dúi Þór er uppalinn Stjörnumaður. Hann var afar sigursæll í yngri flokkunum með félaginu og steig svo sín fyrstu skref í meistaraflokki með uppeldisfélaginu. Fyrir síðustu leiktíð færði hann sig svo norður á Akureyri. Samstarf Stjörnunnar og Álftaness skilaði því að Dúi Þór lék með liði Álftanes á venslasamningi tímabilið 2019-2020. Hann skoraði þá tæp 18 stig, tók rúmlega sex fráköst og gaf rúmar sex stoðsendingar í leik, en Dúi var 18 ára það leiktímabil,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

„Það er gott að spila á nesinu og við erum með best mannaða hópinn í deildinni að mínu mati. Ég er virkilega spenntur að spila stórt hlutverk í liði sem ætlar sér stóra hluti á næstu árum,“ sagði Dúi sjálfur en hann hefur áður spilað undir stjórn Kjartans Atla Kjartanssonar, þjálfara Álftanes í dag en hann þjálfaði áður yngri flokka Stjörnunnar.

Dúi er þriðji leikmaðurinn sem bætist við leikmannahóp Álftaness fyrir komandi átök í 1. deildinni. Auk Dúa eru þeir Pálmi Geir Jónsson (sem kom frá Val) og Snjólfur Marel Stefánsson (sem kom frá Njarðvík) gengnir í Álftanes.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×