Starfsmennirnir hafa krafist betri kjara, en samningaviðræður sigldu í strand í gær. Verkfallið mun sömuleiðis hafa áhrif á ferðir neðanjarðarlestakerfisins í höfuðborginni London.
Breskir fjölmiðlar segja frá því að um fjörutíu þúsund ræstingarmenn, tæknimenn og starfsmenn lestarsöðva hafi ráðist í verkfallsaðgerðirnar sem munu standa í dag, á fimmtudag og laugardag. Vegna vinnustöðvunarinnar er reiknað með að lestarsamgöngur í landinu muni að mestu liggja niðri þessa daga.
Talsmenn stéttarfélagsins Rail, Maritime and Transport Union segja að nýjasta tilboð viðsemjenda sinna hafi verið að fullu óásættanlegt og vísa þeir til þess að framfærslukostnaður fólks hafi hækkað í Bretlandi líkt og annars staðar í álfunni og því sé nauðsynlegt að hækka laun.
Í frétt Guardian segir að alls muni um 4.500 lestir ganga í dag, en vanalega eru þær um 20 þúsund.