Hin 28 ára gamla Ragnheiður er uppalin á Ásvöllum í Hafnafirði og snýr nú aftur eftir erfiðan tíma hjá Val. Hún sleit krossband í hné síðla árs 2020 og var tæpt ár frá keppni.
Hún sneri til baka síðasta haust og hjálpaði Val að landa bikarmeistaratitlinum. Valskonur töpuðu naumlega fyrir Fram í úrslitum Íslandsmótsins.
Haukar greindu frá vistaskiptum Ragnheiðar á samfélagsmiðlum sínum. Þar segir að það sé mikið „ánægjuefni að fá Ragnheiði heim á Ásvelli og verður gaman að sjá hana í Haukabúningnum á ný í haust.“ Þar kemur einnig fram að Ragnheiður gerir tveggja ára samning við félagið.
Ragnheiður, sem leikur iðulega á línunni, spilaði stórt hlutverk í Haukaliðinu sem varð deildarmeistari árið 2016. Haukar vonast til að endurtaka leikinn og gera enn betur á næstu leiktíð.
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.