Erlent

Fimm látnir og tugir særðir eftir elds­voða í há­hýsi í Buenos Aires

Atli Ísleifsson skrifar
Eldurinn kom upp í lítilli íbúð í fjórtán hæða húsi í Buenos Aires.
Eldurinn kom upp í lítilli íbúð í fjórtán hæða húsi í Buenos Aires. AP

Fimm eru látnir og 35 slasaðir eftir mikinn eldsvoða í háhýsi í argentínsku Buenos Aires í gær.

AP segir frá því að hin látnu – tvær konur og þrjú börn – séu öll úr sömu fjölskyldunni. Þau voru öll á lífi þegar þeim var bjargað úr byggingunni en létust á leið á sjúkrahús af völdum mikilla brunasára eða reykeitrunar.

Karlmaður í sömu fjölskyldu slasaðist einnig alvarlega og dvelur hann nú á sjúkrahúsi, en í hópi slasaðra er einnig fjöldi lögreglu- og slökkviliðsmanna.

Íbúi í húsinu segir í samtali við La Nacion að það hafi heyrst sprenging áður en eldurinn kom upp. „Við heyrðum í fólki sem hrópaði á hjálp og svo sáum svo mikinn reyk. Ég sá tvö börn sem hölluðu sér fram af svölunum,“ sagði nágranninn í samtali við blaðið.

AP

Eldurinn kom upp snemma á fimmtudagsmorgninum á sjöundu hæð hússins, en að sögn lögreglu á hann að hafa komið upp í lítilli íbúð. Eldurinn leitaði svo upp á áttundu hæð hússins sem er fjórtán hæða.

Saksóknarinn Sebastian Fedullo segir ástæður eldsvoðans líklega vera slys og að ekki hafi verið um saknæmt athæfi að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×