Austurfrétt greinir frá því að vaskir malbikarar frá Malbikun Norðurlands hafi malbikað götuna í vikunni.
Alla jafna væri það ekkert sérstaklega fréttnæmt að ein stök íbúðargata sé malbikuð, hvort sem það er í Reykjavík eða á Vopnafirði.
Sigtúnið á Vopnafirði varð hins vegar landsfrægt árið 2014 þegar nokkrir íbúar götunnar stofnuðu framboð, Betra Sigtún, þar sem eitt af helstu stefnumálunum var að malbika götuna.
Í viðtali við Lóu Pind Aldísardóttur í aðdraganda kosninganna árið 2014 sögðu forsvarsmenn framboðsins hafa verið svekktir með að gatan væri sú eina sem væri ekki malbikuð í götunni. Grínuðust þau með að þau þyrfti að fara í framboð til að fá þessu breytt.
Framboðið hlaut ágæta kosningu í sveitarstjórnarkosningunum 2014 og myndaði meirihluta með K-lista félagshyggjufólks. Sá meirihluti sprakk árið 2017 og þá myndaði Betra Sigtún meirihluta með B-lista Framsóknarmanna.
Framboðin tvo mynduðu svo áfram meirihluta eftir kosningarnar 2018 en Betra Sigtún bauð ekki fram í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.
Í frétt Austurfréttar kemur fram að malbikun Sigtúns hafi á undanförnum árum strandað á skipulagsmálum, sem úr hafi verið leyst á síðasta kjörtímabili. Því má segja að Betra Sigtúni hafi tekist að efna kosningaloforðið, átta árum eftir að framboðið leit dagsins ljós, þó það sé ekki lengur við völd.