Innherji

Elkem lagði íslenska ríkið í deilu um vaxtagjöld

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi. 
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi. 

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra um að vaxtagreiðslur á láni sem Elkem á Íslandi fékk frá norska móðurfélaginu væru ekki frádráttarbærar frá skatti.

Málavextirnir voru þeir að Elkem, sem rekur kísilver á Grundartanga, gaf út skuldabréf upp á nærri 1,8 milljarða króna í nóvember 2012 sem var selt til móðurfélagsins í Noregi í tengslum við fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands.

En með úrskurði ríkisskattstjóra um mitt ár 2020 var gjaldfærslu vaxta af skuldabréfinu, sem námu samtals um 800 milljónum króna, hafnað. Stofnunin sagði að forsenda fyrir því að vextir væru frádráttarbærir frá skattskyldum tekjum væri að láni væri tekið í rekstrarlegum tilgangi.

Þegar horft er til þess að félög í atvinnurekstri hafa almennt forræði á því hvernig þau kjósa að haga fjármagnsskipan sinni verður yfirleitt mikið að koma til svo vikið verði frá ráðstöfunum

Ríkisskattstjóri hélt því fram að félag í sömu stöðu og Elkem hefði ekki tekið lán til jafn langs tíma og sömu kjörum. Elkem hefði því tekið þátt í viðskiptum við tengdan aðila sem höfðu ekki það markmið að afla fyrirtækinu tekna heldur það að móðurfélagið hagnaðist á viðskiptum með gjaldeyri.

Elkem, sem vísaði rökum ríkisskattstjóra á bug og taldi úrskurðinn í ósamræmi við lög, stefndi íslenska ríkinu og var dómur héraðsdóms birtur í dag.

Héraðsdómur féllst ekki á að lánsfjárhæð skuldabréfins hefði verið ótengd rekstri félagsins. „Miðað við fyrirliggjandi ársreikning verður ekki annað séð en að töluverðar fjárfestingar og niðurgreiðslu á öðrum skuldum hafi átt sér stað á því ári sem skuldabréfið var gefið út,“ segir í dóminum.

Þá segir héraðsdómur óumdeilt að hvorki væri um að ræða óeðlileg viðskiptakjör á umræddu skuldabréfi né hafi tilgangurinn með því að verið að sá að flytja tekjur frá háskattalandi til lágskattalands. Skatthlutfallið í Noregi, eins og Elkem benti á við meðferð málsins, sé hærra en hér á landi.

„Þegar horft er til þess að félög í atvinnurekstri hafa almennt forræði á því hvernig þau kjósa að haga fjármagnsskipan sinni, þar með talið hvort fjármagna beri reksturinn með eigin fé eða lánsfé, verður yfirleitt mikið að koma til svo vikið verði frá ráðstöfunum á grundvelli þess að þær séu verulega frábrugðnar því sem almennt gerist í viðskiptum ótengdra aðila,“ segir jafnframt í dómnum.

Að mati héraðsdóms tókst ríkisskattstjóra ekki að sýna fram á að frádráttur vaxtanna hefði ekki fallið undir lög og var því fallist á kröfu Elkem um að fella úrskurðinn úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×