Vaninn er sá að tvær landsliðskonur eru saman í herbergi á ferðum liðsins um heiminn en að þessu sinni þá er boðið upp á einstaklingsherbergi.
Landsliðsmarkvörðurinn Sandra Sigurðardóttir hefur tekið það að sér hingað til að vera ein í herbergi þar sem 23 leikmenn eru í hópnum.
Sandra hefur tekið vel í það eins og hún sagði frá í viðtali á æfingu liðsins í Crewe í dag.
„Ég er búin að vera ein í herbergi í síðustu verkefnum. Við erum oddatala og það hentar mér ágætlega,“ sagði Sandra en nú er markvörðurinn öflugi ekki sú eina í þeirri stöðu.
„Núna erum við allar einar í herbergi. Við megum para okkur saman ef við viljum. Það fínt að geta stundum verið mér sjálfum sér. Það er mikilvægt líka,“ sagði Sandra.
Íslenska liðið æfði á æfingasvæði Crewe í dag en liðið spilar síðan fyrsta leik sinn á mótinu á móti Belgíu á sunnudaginn.