Halla Vilhjálmsdóttir söng- og leikkona, sem nú hefur snúið sér að verðbréfamiðlun, er í Lundúnum þar sem hiti fór upp í 41 gráðu í dag. Hún ræddi ástandið í Bretlandi í Reykjavík síðdegis.
Halla var um tíma búsett í Lundúnum en er nú flutt aftur heim til Íslands. Nú er hún í fríi í sinni gömlu heimaborg en þar ríkir ófremdarástand vegna hita. Hún segir að hitaviðvörun hafi verið gefin út fyrir daginn og hún hafi heyrt ógnvænlegar sögur. Til að mynda hafi kviknað í bíl vegna hitans og fjöldi ungmenna hafi þegar látist. Varað hafi verið sérstaklega við því að ungmenni séu ekki síður í lífshættu vegna hitans en þeir sem eldri eru.
Í dag þurfti að loka flugvellinum í Luton um stund eftir að malbik á flugbraut hans byrjaði að bráðna vegna hitans. Halla segir að það hafi einnig gerst á herflugvelli í nágrenni Lundúna.
Þá segir Halla að hún og samferðafólk hennar eigi miða á landsleikinn mikilvæga í kvöld. Stelpurnar okkar geta tryggt sér sæti í átta liða úrslitum með sigri gegn sterku liði Frakka í Rotherham.
Halla segist ekki treysta sér að mæta á leikinn þar sem Rotherham er í um 3,5 klukkustunda akstursfjarlægð frá Lundúnum. Hún geti ekki hugsað sér að sitja svo lengi í bíl í hitanum. „Samt erum við alveg með andlitsmálninguna og treyjurnar, það er voða leiðinlegt,“ segir hún en tekur fram að hún muni styðja stelpurnar heilshugar í anda.