Innlent

Glæsilegur handverksmarkaður í Króksfjarðarnesi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ingibjörg Kristjánsdóttir, handverkskona í Garpsdal (t.h.) og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, handverkskona í Mýrartungu II, sem eru hluti af stofnendum Handverksfélagsins Össu.
Ingibjörg Kristjánsdóttir, handverkskona í Garpsdal (t.h.) og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, handverkskona í Mýrartungu II, sem eru hluti af stofnendum Handverksfélagsins Össu. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Handverkskonurnar í Króksfjarðarnesi í Reykhólasveit hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af verkefnisleysi í sumar því það hefur verið meira en nóg að gera hjá þeim á handverksmarkaðnum í gamla Kaupfélagshúsinu að selja vörurnar sínar.

Handverksmarkaðurinn er í gamla Kaupfélagshúsinu í Króksfjarðarnesi þar sem má finna fjölbreytt og fallegt handverk unnið af konum í sveitinni og í næsta nágrenni. Þar er líka bókamarkaður og nytjamarkaður, og að sjálfsögðu er líka hægt að setjast niður og fá sér kaffi og veitingar. 

Félag kvennanna heitir "Handverksfélagið Assa", en Ingibjörg Kristjánsdóttir er einn af stofnendum þess. Einn karlmaður fær að vera "laumufélagi" hjá konunum en hann heitir Arnór Grímsson og sér um að sjóða rabarbarasultuna fyrir markaðinn.

Handverkskonurnar í Króksfjarðarnesi í Reykhólasveit, ásamt Arnóri Grímssyni, sem sér um að sjóða rabarbarasultuna fyrir markaðinn.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Já, við erum með alveg svakalega flotta vinnu hjá fólkinu og pössum náttúrulega að hleypa engu inn, sem okkur líst ekki á. Félagsmennirnir eru heimafólk hérna og fólk, sem er tengt okkur, sem sagt er flutt í burtu en hefur einhverjar rætur hérna hjá okkur,“ segir Ingibjörg Kristjánsdóttir, handverkskona í Garpsdal og ein af stofnendum hópsins.

Fyrrverandi alþingismaður býr á svæðinu og er í handverkshópnum. Hún er ánægð með sinn hóp.

„Já, þetta mjög flottur hópur og alltaf gaman að koma hérna. Hér er bara allt svo fallegt, allt svo vel upp sett. Ég er nú búin að sjá marga markaði út um landið og ég held að, ég þori ekki að segja að hann sé flottastur en með þeim flottustu,“ segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, handverkskona í Mýrartungu II.

Facebooksíða handverkshópsins

Handverkskonurnar í Króksfjarðarnesi í Reykhólasveit hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af verkefnisleysi í sumar því það hefur verið meira en nóg að gera hjá þeim á handverksmarkaðnum í gamla kaupfélagshúsinu að selja vörurnar sínar.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×