Hólmfríður og Magnús hafa unnið að Flokkstjóranum, fjörutíu mínútna einleik, í sumar. Verkið er á formi flokkstjóranámskeiðs þar sem flokkstjórinn, leikinn af Hólmfríði, fer yfir starf sitt og það hvernig hægt sé að virkja unglinga í vinnu sem þeir hafa ekki áhuga á.
Hægt og rólega kemur í ljós að vinnustaðamenningin er orðin eitruð og hópurinn leggur flokkstjórann í grimmt einelti. Flokkstjórinn þarf þá að fara í ferðalag þar sem hún tekst á við vanmátt sinn. Í sýningunni er fjöldi tilvitnana í unglinga sem höfundarnir segja að séu allar sannar, orð sem unglingar létu falla við Hólmfríði eða aðra flokkstjóra.
Fram til þessa hafa fimm sýningar af Flokkstjóranum verið sýndar, þrjár fyrir almenna sýningargesti og tvær fyrir unglinga í Vinnuskóla Kópavogs. Í kvöld verður sýnd sjötta og síðasta sýningin klukkan átta. Það er frítt inn en fólk verður samt að panta miða á tix.is fyrir fram.
Blaðamaður hafði samband við þau Hólmfríði og Magnús til að forvitnast út í sýninguna.
Vinnustaður frá helvíti
„Ég vann tvö sumur sem flokkstjóri í sumarvinnu og bað Magga um að sækja um og skrifa verk með mér sem byggði á þeirri reynslu, af því það sem ég lenti í var eiginlega bara einelti,“ segir Hólmfríður aðspurð hvaðan hugmyndin hefði komið.
Um vinnustaðinn, sem Hólmfríður vill ekki láta getið, segir hún „Ég vann þarna í fimm sumur, allt í allt. Fyrst sem almennur starfsmaður í þrjú sumur og svo sem flokkstjóri í tvö.“ Vinnan hafi verið hugsuð sem sumarvinna fyrir unglinga á aldrinum fimmtán til tuttugu ára.
Á einum tímapunkti hefði komið inn hópur krakka sem hafði sem heild ekki þurft að sæta ábyrgð fyrir orð sín eða gjörðir. Fyrir vikið innihélt hópurinn ákaflega eitraða menningu sem einkenndist af mannfyrirlitningu og virðingarleysi. Og sú menning fékk að viðgangast áfram.
„Þetta fór úr því að vera skemmtilegasti vinnustaður í heimi, þar sem ég hlakkaði til að mæta í vinnuna, í algjört helvíti í lokin,“ segir Hólmfríður.
Magnús skýtur því inn að þegar Hólmfríður fór úr því að vera almennur starfsmaður yfir í að vera flokkstjóri hafi hún allt í einu verið orðin yfirmaður jafnaldra sinna.
„Ég er yfirmaður en hef engin völd en miklu meiri ábyrgð og allt of mikla ábyrgð miðað við aldur. Strákarnir sem voru verstir voru kannski einu eða tveimur árum yngri en ég,“ segir Hólmfríður.
Það sem Hólmfríður segir að sé líka sérstaklega áhugavert er að eitt og sér hafi fólkið sem hún vann með öll verið fínir einstaklingar.
„Þegar maður talaði við þau ein voru þau góð og skemmtileg en um leið og þau fóru aftur í hópinn sinn þá var menningin svo gegnsýrð af fyrirlitningu að það var ekki pláss fyrir þau að vera almennileg,“ segir hún.
Krufðu ómenningu og reynslusögur flokkstjóra
Til að undirbúa sig fyrir skrifin á verkinu segjast þau hafa rannsakað hópamenningu og hópasálfræði. Þar skoðuðu þau hvernig menning getur breyst á svona stuttum tíma og hvað valdi því að vinnustaðamenning verði svona eitruð.
„Við byrjuðum á að kryfja reynslusögur Hólmfríðar og út frá því að kryfja hvernig ómenning getur myndast. Við töluðum við vinnustaðasálfræðing og fengum fleiri sögur annars staðar frá frá fólki með svipaða reynslu,“ segir Magnús aðspurður hvernig vinnan í sumar hafi farið fram.
„Nýttum okkur nokkrar sögur frá öðrum flokkstjórum sem höfðu verið að vinna með mér á sama vinnustað,“ bætir Hólmfríður við.
Magnús segir að þar komi inn stóra spurningin sem þau hafi verið að vinna með í sumar: „Hvenær verða börn að fullorðnum einstaklingum?“
„Hvenær þurfa þau að byrja að taka ábyrgð? Þegar þú ert unglingur þá er eins og þú komist upp með svo margt af því þú átt ekki að vita betur,“ bætir hann við.
Barnaklámsskilaboð milli ungs starfsfólks talin léttúðug
Hólmfríður greindi vinnustaðasálfræðingnum frá frásögn sinni og var niðurstaða hans að upplýsingaflæði hafi skort milli verkstjóra og yfirmanna þeirra.
„Í þessu tilfelli hefði þurft að taka harðar á fyrstu atvikunum sem áttu sér stað, sýna strax að það sem gerðist væri ekki í lagi,“ segir Hólmfríður og bætir við að það sem gerist annars sé að línan færist lengra og lengra.
Sem dæmi um ástandið í vinnunni segir Hólmfríður að síðasta sumarið sem hún vann á staðnum hafi það komist upp, að í vinnunni væru einstaklingar að dreifa barnaklámi á Snapchat-grúppu starfsmannanna. Verkstjórarnir hafi tekið á því eins og um væri að ræða smávægileg strákapör en ekki sem lögbroti.
„Þetta finnst mér svo skýrt merki um það hvað mörkin voru orðin brengluð. Það að einhver væri að dreifa barnaklámi var bara álitið lélegt grín,“ segir Hólmfríður.
Flokkstjóri sem glímir í senn við arfa og grasserandi ómenningu
Magnús segir að, burtséð frá reynslunni sem verkið byggir á, hafi verið gaman að nota flokkstjóravinkilinn til að rannsaka efnið.
„Við setjum sýninguna upp eins og flokkstjóranámskeið, kennum fólki að vera góður og jákvæður flokkstjóri. Hægt og rólega kemur í ljós að það virkar ekki að nota hefðbundin trikk, vera jákvæður og snúa öllu upp í hrós, af því ómenningin fær að grassera og það er ekki tekið á henni strax,“ segir hann.
Magnús bætir við hvað hafi verið gaman „að ná að tengja saman ómenninguna sem fékk að grassera við illgresi.“
Starf vinnuhópsins væri að reyta arfa og þarna þyrfti að rífa arfann upp með rótum áður en hann næði að mynda fræ sem gætu dreift sér fyrir næsta sumar.
„Þetta er svo falleg myndlíking fyrir þetta ferli,“ segir hann.
„Flokkstjórinn gengur í gegnum svipað ferli og ég gekk í gegnum, að byrja af krafti og vera jákvæður gagnvart vinnunni. Síðan missti ég alla von á vinnustaðnum og það gerir flokkstjórinn í verkinu líka. Nema hvað flokkstjórinn endurheimtir vonina í lokin á meðan ég var sjálf enn pínu efins,“ segir Hólmfríður.
Þarna séu þau líka að skoða hvernig manneskja bregst við aðstæðum þegar hún er valdalaus.
„Okkar flokkstjóri gengur í gegnum tímabil þar sem hún reynir að vera jákvæð, síðan reynir hún að tengjast krökkunum, vera nett og leyfa þeim að vaða yfir sig og það endar á því að hún verður hálfgert illmenni,“ segir Hólmfríður.
Veðurguðirnir hafa farið mjúkum höndum um þau
Þegar blaðamaður bendir á að það sé sjaldgæft að íslenskar leiksýningar séu sýndar undir berum himni nefnir Magnús barnasýningar á borð við Skoppu og Skrítlu eða Leikhópinn Lottu. Hins vegar sé þetta ekki barnasýning sem þau eru að gera.
Hann nefnir að þau hafi hins vegar verið með tilraunasýningu fyrir krakka í Vinnuskólanum í Kópavogi í gær. Hólmfríður segir að þau hafi verið hvött til þess, sérstaklega af kennurum sem tengja við umfjöllunarefni sýningarinnar. Fólk sem hafi upplifað eitraða unglingahópa.
Þegar blaðamaður spurði hvernig veðrið hefði leikið þau sagði Hólmfríður „Við erum búin að vera ógeðslega heppin með veður. Enda skrifuðum við það í manifestóið að veðrið yrði gott. Frumsýningin var í glampandi sól og þriðja sýningin líka. Það var svo reyndar skýjað og pínu kalt á annarri sýningunni.“
„En við erum með teppi og kakó og svo eru þetta bara 40 mínútur, akkúrat lengdin sem maður þolir að sitja úti,“ segir Magnús en bætir við að fólk klæði sig líka bara eftir veðri.
„Það er náttúrulega mjög stressandi að sýna úti á Íslandi. Smá eins og að halda fimm brúðkaupsveislur,“ segir Hólmfríður að lokum.