Körfubolti

Hard­en hjá 76ers næstu tvö árin: „Eina sem skiptir mig máli er að keppa um titilinn“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
James Harden verður áfram í bláu.
James Harden verður áfram í bláu. Mitchell Leff/Getty Images

James Harden hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við NBA-liðið Philadelphia 76ers. Þessi 32 ára skotbakvörður hóf síðasta tímabil með Brooklyn Nets en færði sig svo yfir til Philadelphia á þessu ári.

Eftir að hafa leikið með Oklahoma City Thunder fór Harden til Houston Rockets árið 2012. Þar var hann í níu ár áður en hann skipti yfir til Nets þar sem hann var hluti af gríðarlega öflugu þríeyki. Innihélt það hann sjálfan, Kevin Durant og Kyrie Irving.

Þríeykið náði þó lítið að spila saman vegna ýmissa aðstæðna og yfirgaf Harden Nets á þessu ári. Hann fór til 76ers þar sem hann ætlar að vera næstu tvö árin. Mun sá samningur gefa honum 68 milljónir Bandaríkjadala í vasann.

Í viðtalið nýverið við Yahoo Sports sagði Harden að það eina sem skipti hann máli væri að berjast um titilinn. Honum væri í raun sama hvað hann fengi borgað.

„Ég sagði Daryl (Morey, forseta 76ers) að bæta leikmannahópinn, semja við þá sem við þyrftum og láta mig hafa það sem væri eftir. Það sýnir hversu mikið ég vil vinna. Að berjast um titilinn er það eina sem skiptir mig máli á þessum tímapunkti.“

Philadelphia 76ers endaði í 4. sæti Austurdeildar á síðustu leiktíð og féll svo úr leik fyrir Miami Heat í annarri umferð úrslitakeppninnar.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×