Fótbolti

Sagði Klopp fyrir ári að hann vildi fara

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mané í æfingaleik með Bayern á dögunum.
Mané í æfingaleik með Bayern á dögunum. Tim Nwachukwu/Getty Images

Sadio Mané segir ákvörðun sína að yfirgefa Liverpool til að semja við Þýskalandsmeistara Bayern Munchen hafa legið fyrir um nokkurt skeið. Hann vildi nýja áskorun.

Mané spilaði í sex ár með Liverpool og átta ár alls á Englandi þar sem hann spilaði tvær leiktíðir með Southampton sem keypti hann frá Red Bull Salzburg árið 2014.

Hann vann alla titla sem í boði eru á tíma sínum hjá Liverpool, þar á meðal enska bikarinn og deildabikarinn á síðustu leiktíð, þar sem Liverpool var hársbreidd frá því að vinna einnig ensku úrvalsdeildina og Meistaradeild Evrópu.

Hann segir það hins vegar hafa legið fyrir áður en sú leiktíð hófst að hann myndi yfirgefa liðið í sumar.

„Það var á síðasta ári sem ég tók þá ákvörðun að fara vegna þess að ég þurfti nýja áskorun í líf mitt,“ segir Mané við breska ríkisútvarpið, BBC.

„Þetta var rétti tíminn. Ég talaði við þjálfarann [Jurgen Klopp] fyrir einu ári og sagði honum frá löngun minni til að fara,“

„Ég átti sex yndisleg ár með Liverpool og ég get sagt að við unnum næstum allt sem í boði var. Þetta var ekki einföld ákvörðun en stundum þarf að taka slíkar ákvarðanir í lífinu,“

„Ég er í dag hjá einu besta félagi heims og ég er mjög, mjög ánægður að vera hjá Bayern Munchen og er spenntur að hefja leiktíðina,“ segir Mané.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×