Þetta kemur fram í nýju verðmati Jakobsson Capital, sem var birt í gær og Innherji hefur undir höndum, en þar er sagt að tekjuvöxtur Icelandair á öðrum ársfjórðungi – tekjurnar námu um 42,5 milljörðum króna og jukust um 32,5 milljarða frá sama tíma í fyrra – hafi verið „gríðarlegur og lítillega umfram væntingar.“
Samkvæmt greiningu Jakobsson Capital á Icelandair, þar sem gert ráð fyrir hærri tekjum og hagstæðari kostnaðarhlutföllum en áður, er nýtt verðmatsgengi á félaginu 2,9 krónur á hlut – fyrra verðmat hljóðaði upp á 2,45 krónur á hlut – sem er um 60 prósentum hærra en gengi bréfa flugfélagsins við lokun markaða í gær sem stóð í 1,82 krónum á hlut. Markaðsvirði Icelandair, samkvæmt þessu verðmati, er um 117 milljarðar króna.
Eftir að hafa lækkað mikið frá lokum apríl fram í miðjan júnímánuði – lægst fór gengið niður í 1,39 krónur á hlut – hefur hlutabréfaverð Icelandair hækkað mikið á síðustu vikum og er upp um liðlega fjórðung á einum mánuði.
Fram kemur í verðmatsgreiningunni að hátt eldsneytisverð hafi vissulega haft mikil áhrif á uppgjör Icelandair og var sá kostnaður um 35,6 prósent af fargjaldatekjum félagsins á tímabilinu. Horfur séu hins vegar bjartsýnar fyrir þriðja ársfjórðung en þotueldsneyti er um 1.100 Bandaríkjadalir tonnið eftir að hafa farið hæst í yfir 1.450 dalir á öðrum fjórðungi. Meðalverðið það sem af er þriðja ársfjórðungi – sem hófst í júlí – er um 11 prósentum lægra en það var að jafnaði á síðasta fjórðungi. Allar líkur séu því á minni eldsneytiskostnaði, að sögn greinenda Jakobsson.
Flugfargjaldatekjur Icelandair hækkuðu mikið á milli fjórðunga og voru samtals 298 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi borið saman við rúmlega 125 milljónir dala á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022.
Það sem skiptir mestu máli, að mati greinenda Jakobsson Capital, er hins vegar að nýting stórbatnaði á öðrum fjórðungi og var 79 prósent samanborið við 67 prósent á fjórðungnum þar á undan. Miðað við núverandi verð þotueldsneytis sé „líklega mjög erfitt ef ekki nær ómögulegt“ að ná rekstrarhagnaði (EBIT) ef nýting er 75 prósent eða lægri, en félagið skilaði rekstrarhagnaði á öðrum ársfjórðungi upp á 1,2 milljónir dala.
„Það er í fyrsta skipti síðan 2017 sem það er rekstrarhagnaður á öðrum ársfjórðungi, þótt lítill sé,“ segir í verðmati Jakobsson, og rifjað upp að öðrum ársfjórðungi í fyrra var rekstrartap sem nam 62,2 milljónum dala.
Með tilkomu Max-vélanna í flugþota Icelandair er eldsneytiskostnaður félagsins mun minni en ella og höfðu vélarnar jákvæð áhrif á þann kostnaðarlið á öðrum fjórðungi sem nemur tæplega 3 milljörðum króna.
Stjórnendur Icelandair gera ráð fyrir rekstrarhagnaði á seinni hluta ársins.
„Fjárfestar þurfa að vera ansi svartsýnir ef það á ekki að ganga eftir,“ segir í greiningu Jakobsson, og allar líkur séu á að nýting muni hækka enn frekar á þriðja ársfjórðungi. „Aukin nýting samfara lægra verði á þotueldsneyti á að leiða til mikillar aukningar í rekstrarhagnaði á þriðja ársfjórðungi. Afkastageta Icelandair jókst umtalsvert milli annars og þriðja ársfjórðungs og því útlit fyrir hærri tekjur.“
Jakobsson spáir um 19 milljóna dala rekstrartapi yfir árið 2022 í heild hjá Icelandair – rekstrartapið á fyrri árshelmingi er um 57 milljónir dala – en að EBITDA félagsins verði hins vegar jákvætt um rúmlega 103 milljónir dala.
Þrátt fyrir að gera ráð fyrir bestu afkomu Icelandair síðan frá árinu 2017 þá virðast kostnaðarhlutföll félagsins stefna í að vera á svipuðum slóðum og á árinu 2014 sem var metár í afkomu Icelandair. Í greiningu Jakobsson er bent á að olíuverð sé nú svipað og það var 2014 en flugfloti Icelandair sé hins vegar allt annar en þá þar sem félagið hefur tekið í notkun 14 Boeing Max-vélar af um 30 sem eru í millilandafluginu en þær eru um 37 prósent sparneytnari en eldri vélar Icelandair.
Samtímis því að taka nýrri vélar inn í flotann hefur viðhaldskostnaður minnkað en lendingargjöld og annar kostnaður, eins og meðal annars launakostnaður, virðist svipaður, að því er segir í verðmatinu. Í því ljósi sé spá Jakobsson Capital um rúmlega 38 milljóna dala rekstrarhagnað á seinni hluta ársins „varfærin“.
Á móti komi hins vegar að það fylgir því kostnaður að taka inn nýjar vélar í notkun og kostnaður fylgir því að fljúga til nýrra áfangastaða. „Icelandair hefur ekki farið varhluta af mönnunarvandræðum erlendis og mikilli flugumferð. Tafir og kostnaður hefur fylgt ástandinu í sumar,“ segir í greiningunni.