Íslenski boltinn

Freyr réttir Leiknismönnum hjálparhönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leiknismaðurinn Freyr Alexandersson stýrði Lyngby upp í dönsku úrvalsdeildina á síðasta tímabili.
Leiknismaðurinn Freyr Alexandersson stýrði Lyngby upp í dönsku úrvalsdeildina á síðasta tímabili. getty/Lars Ronbog

Leiknir R. hefur fengið danska framherjann Zean Dalügge á láni frá Lyngby. Lánssamningurinn gildir út tímabilið.

Þjálfari Lyngby, Freyr Alexandersson, er Leiknismönnum að góður kunnur en hann er fyrrverandi leikmaður og þjálfari félagsins. Hann vonast væntanlega til að Dalügge hjálpi Leikni að halda sæti sínu í Bestu deildinni.

„Við bindum vonir við að þessi sending frá vinum okkar í Kóngsins Lyngby reynist farsæl fyrir alla aðila og bjóðum þennan unga leikmann velkominn í Breiðholtið,“ sagði Oscar Clausen, formaður Leiknis, í frétt á heimasíðu félagsins.

Dalügge, sem er nítján ára, er nýstiginn upp úr erfiðum meiðslum og kemur til Íslands í von um meiri spiltíma. Hann er uppalinn hjá Esbjerg en kom til Lyngby í byrjun þessa árs.

Leikni veitir ekki af liðsstyrk en liðið er í ellefta og næstneðsta sæti Bestu deildarinnar og hefur tapað síðustu tveimur leikjum sínum, 1-9 samanlagt. Ekkert lið hefur skorað færri mörk í Bestu deildinni en Leiknir, eða tólf. Næsti leikur Leiknismanna er ekki fyrr en mánudaginn 8. ágúst þegar þeir fá Keflvíkinga í heimsókn.

Auk Dalügges fékk Leiknir Adam Örn Arnarson á láni frá Breiðabliki. Maciej Makuszewski og Arnór Ingi Kristinsson yfirgáfu hins vegar Breiðholtsliðið á lokadegi félagaskiptagluggans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×