Sport

Fjöldi íþróttamanna hefur gufað upp eftir HM í frjálsum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eritreumaðurinn Yemane Haileselassie sést hér í úrslitum í 3000 metra hindrunarhlaupsins á HM í frjálsum í Eugene.
Eritreumaðurinn Yemane Haileselassie sést hér í úrslitum í 3000 metra hindrunarhlaupsins á HM í frjálsum í Eugene. Getty/Steph Chambers

Fjórir keppendur Eritreu á HM í frjálsum íþróttum eru horfnir eftir heimsmeistaramótið í Eugene í Bandaríkjunum á dögunum.

Einn af þessum keppendum er Yemane Haileselassie sem náði sjöunda sætinu í 3000 metra hindrunarhlaupi á mótinu.

Haileselassie er 24 ára gamall en hinir sem hafa gufað upp eftir mótið eru Habtom Keleta og Merhawi Teweldebererhan, sem eru báðir átján ára og hinn 24 ára gamli Ande Filmon. Auk þeirra er hinn 44 ára gamli starfsmaður Eritreu liðsins, Berhe Nigusse, líka horfinn.

Haileselassie er stærsta stjarnan í hópnum en hann á landsmetið og keppti bæði á 2016 Ólympíu leikunum í Ríó og á 2021 Ólympíuleikunum í Tókýó.

Kringumstæðurnar eru ekki kunnar samkvæmt fréttum bandarískra miðla eru bæði Alríkislögreglan, FBI, og lögreglan í Oregon fylki að rannsaka málið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem keppendur frá Eritreu hverfa. Einn af þeim Weynay Ghebresilasie sem keppti á Ólympíuleikunum í London 2012. Hann hvarf eftir leikana og settist að í Englandi. Hann sagði seinna frá því að hann hefði flúið landið sitt vegna slæmra mannréttinda í Eritreu.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch meta stöðuna í Eritreu sem eina þá verstu í heiminum. Eritrea er sex milljóna þjóð í norðaustur Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×