Innlent

Hvetja fólk til að yfir­gefa brekkuna á mið­nætti

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Stjórn baráttuhópsins Öfgar.
Stjórn baráttuhópsins Öfgar. Aðsent

Baráttuhópurinn Öfgar sendi nú fyrr í kvöld frá sér yfirlýsingu þar sem þær hvetja þjóðhátíðargesti að yfirgefa brekkuna þegar meintur gerandi stígur á svið. Gestir sýni þannig stuðning við þolendur í verki.

Hópurinn segist hafa talið að tími þolenda væri nú loksins kominn í kjölfar margra ára baráttu og berskjöldunar af hálfu þolenda. Þær segja að með því að bjóða meintum geranda upp á svið sé þjóðhátíðarnefnd að koma í veg fyrir að þolendavæn þjóðhátíð geti átt sér stað.

Þær segja meinta gerandann sem um ræðir hafa nýtt sér valdastöðu sína og veist að æru þolanda sem hafi kært hann fyrir nauðgun.

„Seinna málið fór ekki jafn hátt í umræðunni því við sem samfélag brugðumst þolendum með því að kokgleypa við aðförinni sem stóð yfir vikum saman. Hann bjó til uppskrift fyrir alla hina og mörgum árum síðar eru þessar aðferðir meintra gerenda enn við lýði,“ segir í tilkynningunni.

Þjóðhátíðarnefnd og tónlistarfólk hafi sannað með þögn sinni að þolendur skipti þau ekki máli. Slaufunarmenning gagnvart meintum gerendum sé ekki til en henni sé þess í stað beint að þolendum.

Hópurinn hvetur þjóðhátíðargesti sem standi með þolendum til þess „að yfirgefa brekkuna þegar hann stígur á svið. Hlutleysi er ekki til. Hlutleysi þýðir afstaða með meintum geranda,“ segir í lok tilkynningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×