Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Valur 0-5 | Einstefna í Keflavík

Atli Arason skrifar
visir-img
vísir/diego

Valur vann 0-5 stórsigur á Keflavík í vægast sagt krefjandi aðstæðum suður með sjó. Leikurinn var einstefna að marki Keflavíkur frá upphafi til enda.

Ásdís Karen Halldórsdóttir átti fyrstu marktilraun leiksins strax á annari mínútu og voru það skýr skilaboð um það sem koma skyldi. Valskonur voru með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og nýttu hann vel en Sandra Sigurðardóttir, markvörður Vals, fékk tvisvar að snerta boltann í öllum fyrri hálfleiknum.

Fyrsta mark leiksins kom á 13. mínútu og var það sjálfsmark hjá Keflavík. Anna Rakel Pétursdóttur, leikmaður Vals, tók þá hornspyrnu hægra megin og eftir smá barning inn í vítateig Keflavíkur varð Snædís María Jörundsdóttir fyrir því óláni að fá knöttinn í sig og þaðan fór hann í netið og gestirnir komust í forystu.

Valskonur héldu áfram að hamra járnið meðan það var heitt. Á 23. mínútu gekk boltinn afar vel á milli leikmanna Vals sem endaði á því að Þórdís Hrönn fékk knöttinn við enda vítateigs Keflavíkur og gaf hann þvert á Cyera Makenzie sem smellti boltanum niður í hægra hornið.

Valur átti fjöldann allan af marktilraunum á mark Keflavíkur það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en á sama tíma hafði Sanda Sigurðardóttir, markvörður Vals, ekkert að gera í marki hinu megin þar sem Keflavík náði ekki einni einustu marktilraun í fyrri hálfleiknum.

Þrátt fyrir að einhverjir hefðu búist við því þá breytti það litlu sem engu að liðin skiptu um mörk í síðari hálfleik. Leikurinn fór að mestu fram á vallarhelming Keflavíkur. Valur pressaði Keflavík ofarlega og heimakonur komust ekki úr skotgröfunum. Á 63. mínútu gerði Valur þrefalda breytingu og ein af þeim sem kom inn á var markahrókurinn Elín Metta Jensen. Elín gerði þriðja mark Vals einungis mínútu síðar þegar hún vippaði boltanum yfir Murphy í marki Keflavíkur eftir stungusendingu Láru Pedersen.

Fimm mínútum síðar var staðan orðinn 0-4 þegar fyrirgjöf eða skot Önnu Rakelar af vinstri vængnum fór í netið við nærstöng á marki Keflavíkur. Afar klaufalegt fyrir Keflavík og við þetta mark fór nær allur baráttuandi úr heimakonum og leiknum svo gott sem lokið.

Fimmta og síðasta mark leiksins leit dagsins ljós á 84. mínútu. Bryndís Arna Níelsdóttir, leikmaður Vals, skoraði það eftir að hafa komið inn af varamannabekknum tíu mínútum áður. Hornspyrna frá Önnu Rakel berst þá til Bryndísar sem fékk tíma og pláss til að taka við boltanum, leggja hann fyrir sig og hamra honum í netið af stuttu færi. Lokatölur 0-5.

Afhverju vann Valur?

Það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda. Leikurinn var einstefna á mark Keflavíkur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Hverjar stóðu upp úr?

Anna Rakel Pétursdóttir var mjög öflug í liði Vals. Hornspyrnur og fyrirgjafir hennar ógnuðu marki Keflavíkur í nánast hvert skipti sem hún sparkaði boltanum fyrir. Að öðru leyti er hægt að minnast á allt lið Vals eins og það leggur sig, frábær liðsframmistaða.

Hvað gerist næst?

Valur á leik gegn Stjörnunni í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á föstudaginn. Næsta þriðjudag fer Keflavík í heimsókn til Aftureldingar í Mosfellsbæ í mikilvægasta leik tímabilsins hjá báðum liðum.

„Þessi frammistaða var út úr karakter“

Gunnar Magnús, þjálfari Keflavíkur.vísir/vilhelm

Gunnar Magnús Jónsson varð fyrir vonbrigðum vegna frammistöðu liðs síns í kvöld.

„Vonbrigði með frammistöðuna í dag. Við höfum verið að standa okkur vel gegn þessum góðu liðum en þessi frammistaða var út úr karakter hjá okkur. Mér fannst við hengja of mikið haus þegar við fengum á okkur mörkin. Vonbrigði að tapa svona stórt,“ sagði Gunnar í viðtali við Vísi eftir leik.

Vindurinn blés mikið á annað markið og það riðlaði aðeins leikplani Keflavíkur í leiknum.

„Veðrið spilaði stóran þátt hérna, eðlilega sátum við aðeins aftar þegar við vorum á móti vindum í fyrri hálfleik. Við ætluðum að koma framar og sækja meira þegar við vorum með vindinn í bakið í síðari hálfleik en leikplanið heilt yfir var að vera þéttar til baka og beita skyndisóknum en við of mikið úr karakter í dag“

Eftir tapið er Keflavík aðeins einu stigi frá fallsvæðinu en næsti leikur liðsins er gegn Aftureldingu sem er í fallsæti, einu stigi á eftir Keflavík. Það stefnir því í 6 stiga fallbaráttuslag í Mosfellsbæ.

„Þetta er risa leikur. Afturelding er með hörku lið og erfitt að leika gegn þeim. Við þurfum að nota þessa viku vel til skipuleggja okkur og endurheimta orku. Það er hugur í okkur, það er langt síðan við unnum leik. Það er gaman að fara í svona leiki en þetta er það sem fótboltinn snýst um. Þegar maður var að spila sjálfur þá elskaði maður svona einvígi og ég veit að stelpunum hlakkar til,“ sagði Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur.

„Mikill vindur, rigning og blautur völlur“

Pétur Pétursson, þjálfari Vals.Vísir/Diego

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, gat leyft sér að vera ánægður með fimm marka sigur í Keflavík.

„Mér fannst þetta frábær leikur hjá okkur miðað við aðstæður, þetta var svolítið erfitt en það var mikill vindur, rigning og blautur völlur. Mér fannst mitt lið gera þetta algjörlega frábærlega,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, í samtali við Vísi eftir leik.

Pétri fannst Vals liðið takast vel á við erfiðar veður aðstæður sem höfðu mikil áhrif á leikinn.

„Við tókum boltann vel niður og spiluðum honum vel á milli okkar,“ svaraði Pétur áður en hann bætti við.

„Mér fannst við frá fyrstu mínútunni vera ákveðnar í því sem við ætluðum að gera og gerðum það vel. Við nýttum færin okkar og spiluðum boltanum vel innan liðsins, það var grunnurinn í þessu.“

Valur leikur í undanúrslitum Mjólkurbikarsins gegn Stjörnunni og vonast Pétur eftir því að geta tekið þessa frammistöðu með inn í þann leik

„Það er nýr leikur og ný keppni. Við spiluðum vel í kvöld og ég vona að við tökum það með okkur inn í leikinn gegn Stjörnunni á föstudaginn,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira