Kom á óvart
Sýning GANNI fór fram í gærkvöldi og hafa margir tískugúrúar kallað merkið hið skandinavíska Gucci. Öllum að óvöru birtist samstarfslína merkisins við íslenska merkið á tískupöllunum. Vörurnar eru framleiddar úr tæknilegum afgangsefnum úr verksmiðjum 66°Norður og endurunnum efnum.

Þriðja samstarfið
Fyrrum samstarfslínur merkjanna á árunum 2018 og 2019 nutu velgengni og byggir hönnunin áfram á Kaupmannahafnarstíl GANNI og íslenskri arfleifð og þekkingu 66°Norður á framleiðslu á útivistarfatnaði.
„Við höfum náð að byggja upp náið samstarf, við erum eins og ein stór fjölskylda þegar við vinnum saman,“ segir Bjarney Harðardóttir, framkvæmdastjóri hjá 66°Norður.
Innblástur frá Íslandi
Innblásturinn í hönnuninni byggir á Kríu línunni sem 66°Norður framleiðir ásamt áherslum GANNI á fatnað fyrir daglegt líf í Kaupmannahöfn. Litavalið er undir áhrifum frá Íslandi en þar má finna skæra liti eins og gulan, grænan, túrkísbláan sem er skírskotun í norðurljósin og íslenska náttúru.
Samstarfslínan er framleidd í takmörkuðu upplagi og samanstendur af buxum, vesti, húfu og tveimur neoshell jökkum.

Stolt af samstarfinu
„Ég er mjög stolt af því að vinna með 66°Norður að þriðju samstarfslínunni, Þau framleiða bestu skjólflíkurnar sem þú getur notað við öll tilefni. Því meira sem við vinnum saman, því meira lærum við hvert af öðru og sköpum traust til að gera tilraunir við þróun og framleiðslu.
Samstarfið okkar er einstakt, ég elska litina sem eru innblásnir af Íslandi, einum fallegasta stað jarðar. Ég get ekki beðið eftir því að sýna flíkurnar á SS23 sýningunni okkar,“ segir Ditte Reffstrup sem er listrænn stjórnandi merkisins GANNI.
Hér að neðan má sjá sýninguna í heild sinni: