Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bréfi Jón Sigurðssonar, forstjóra Stoða, sem var sent á hluthafa fjárfestingafélagsins í fyrstu viku þessa mánaðar og Innherji hefur undir höndum.
Stoðir fara með tæplega 16 prósenta hlut í Símanum, sem var verðmætasta eign félagsins í lok júní þegar það birti árshlutauppgjör sitt fyrir fyrri árshelming, en hann er nú metinn á um 12,6 milljarða og hefur lækkað nokkuð í virði síðustu daga samhliða því að hlutabréfaverð Símans hefur fallið skarpt vegna afstöðu Samkeppniseftirlitsins til kaupa Ardian á Mílu.
Í bréfi sínu rifjar Jón upp að í ljósi þess að Samkeppniseftirlitið taldi að viðskiptin og tengdir samningar myndu að óbreyttu hindra virka samkeppni, sem kallaði á skilyrði ætti að ljúka þeim, þá þurfti Síminn að endursemja við Ardian sem fól meðal annars í sér að gildistími heildsölusamningsins milli Mílu og Símans var styttur úr 20 árum í 17 ár. Það leiddi af sér lækkun á söluandvirðinu um fimm milljarða króna og hækkun á seljendaláni um fjóra milljarða. Heildarvirði viðskiptanna væri því 73 milljarðar og að frádregnum skuldum mun Síminn fá um 54 milljarða fyrir félagið þar sem 35 milljarðar verða í formi reiðufjár en 19 milljarðar með seljendaláni.
„Markmið næstu vikna er að klára þessi viðskipti. Gangi það eftir má búast við hluthafafundi í Símanum á haustmánuðum þar sem fjallað verður um ráðstöfun söluandvirðis,“ segir Jón í bréfinu til hluthafa Stoða sem er ritað nokkrum dögum áður en fulltrúar Ardian funduðu með Samkeppniseftirlitinu þar sem þeim var gert ljóst að framboðin skilyrði franska félagsins til að ljúka viðskiptunum væru ekki fullnægjandi.
Á þeim fundi, sem fór fram þriðjudaginn 9. ágúst síðastliðinn, var Ardian meðal annars upplýst um stöðu athugunar Samkeppniseftirlitsins á þeim umsögnum sem hafa borist frá Fjarskiptastofu og ýmsum fjarskiptafélögum. Flestir umsagnaraðilar telja þörf á frekari skilyrðum af hálfu Ardian og að heildsölusamningurinn við Mílu verði styttur enn frekar. Ardian og Síminn hafa hins vegar gert margvíslegar athugasemdir við umsagnir keppinautanna, einkum umsögn Ljósleiðarans, sem, að sögn franska sjóðastýringarfyrirtækisins, leitast við að fá Samkeppniseftirlitið til þess að „verja markaðsráðandi stöðu sína“.
Í síðustu viku óskaði Ardian eftir því að Samkeppniseftirlitið framlengdi frest til þess að rannsaka málið – hann hefur nú verið framlengdur til 15. september næstkomandi – og þannig skapa „ráðrúm fyrir frekari viðræður,“ eins og kom fram í tilkynningu frá eftirlitinu. Fáist niðurstaða í þær viðræður, sem er lýst af þeim sem þekkja til sem afar snúnum og viðkvæmum, þá mun Ardian í kjölfarið þurfa að eiga samtal við Símann um hvaða áhrif það hefur á kaupverðið á Mílu.
Kaupverðið hefur nú þegar lækkað úr 78 milljörðum króna niður í 73 milljarða vegna tillögu Ardian um að stytta samningstímanum úr 20 árum í 17 ár, og ljóst er að frekari stytting kallar á frekari lækkun á kaupverðsins. Aftur á móti er ekki víst að stjórn Símans sé reiðubúin að samþykkja sölu á mun lægra verði.
Fram kom í bréfi Samkeppniseftirlitsins til LEX, sem er helsti lögfræðilegur ráðgjafi Ardian hér á landi, síðasta fimmtudag að á fyrrnefndum fundi með franska sjóðastýringarfélaginu hafi komið fram að eftirlitið hefði „fullan hug á áframhaldandi sáttarviðræðum með það að markmiði að finna ásættanlega lausn á þeim samkeppnisvandamálum sem eftirlitið hefði komið auga á.“ Þá var sömuleiðis ítrekað að rof á eignatengslum Símans og Mílu væru jákvæð, en samhliða að það væri verkefni eftirlitsins að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði.
Samkeppniseftirlitið hefur fullan hug á áframhaldandi sáttarviðræðum með það að markmiði að finna ásættanlega lausn á þeim samkeppnisvandamálum sem eftirlitið hefði komið auga á.
Samkeppniseftirlitið segir hins vegar það vera frummat sitt að niðurstaðan í andmælaskjalinu standi en sökum meðal annars heildsölusamningsins þá myndu kaup Ardian á Mílu, að mati stofnunarinnar, raska samkeppni og þörf sé á íhlutun til að vinna gegn þeim. Þá væri það einnig skoðun Samkeppniseftirlitsins á þessu stigi rannsóknarinnar að framboðin skilyrði séu ekki fullnægjandi. Á fundinum var því rætt um önnur möguleg skilyrði og héldu þær umræður áfram daginn eftir miðvikudaginn 10. ágúst.
Samkeppniseftirlitið tekur fram að það telji forsendur fyrir því að kanna nánar í sáttaviðræðum við Ardian hvort unnt sé að leysa málið með þeim hætti að „annars vegar hagsmunir samfélagsins af samkeppni á afar mikilvægum markaði og hins vegar viðskiptalegir hagsmunir tengdir sölunni á Mílu séu tryggðir með fullnægjandi hætti.“