Sport

Átta leikja bann fyrir að stinga hönd á milli rasskinna andstæðings

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Corey Norman verður ekki með í næstu átta leikjum Toulouse Olympique af frekar furðulegum ástæðum.
Corey Norman verður ekki með í næstu átta leikjum Toulouse Olympique af frekar furðulegum ástæðum. NRL Photos via Getty Images

Corey Norman, leikmaður franska rúgbíliðsins Toulouse Olympique, hefur verið dæmdur í átta leikja bann fyrir að stinga hönd á milli rasskinna andstæðings síns í leik gegn Warrington.

Norman er gert að sök að hafa stungið hönd sinni á milli rasskinna Oliver Holmes í miðjum leik er botnlið Toulouse tapaði gegn Warrington síðastliðinn fimmtudag.

Leikmaðurinn verður því ekki með liðinu það sem eftir lifir tímabils þar sem liðið á aðeins sex leiki eftir, en Toulouse er fjórum stigum frá öruggu sæti í deildinni.

Norman hefur neitað sök í þessu furðulega máli, en þriggja manna nefnd á vegum deildarinnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að þessi 31 árs leikmaður hafi „viljandi lagt hönd á milli rasskinna andstæðings,“ og því stendur bannið.

„Myndbandsupptökur af atvikinu sýna að Corey Norman færir vinstri hönd sína viljandi yfir Oliver Holmes og þaðan á rasskinnar hans,“ segir í úrskurði nefndarinnar.

„Myndbandsupptökurnar sýna einnig að Norman leggur höndina og fingur sína viljandi á milli rasskinna Holmes, sem í kjölfarið kallar fram snögg viðbrögð og kvartanir frá Holmes. Viðbrögð liðsfélaga Holmes, Danny Walker, og vitnisburður Holmes gera það að verkum að við höfum komist að þeirri niðurstöðu að Norman hafi viljandi stungið hönd sinni á milli rasskinna andstæðings síns og því stendur bannið.“

Norman mun ekki einungis þurfa að sitja af sér átta leikja bann því hann hefur einnig verið sektaður um fimmhundruð pund, sem samsvarar tæplega 84 þúsund krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×