Erlent

Minnst 32 létust þegar ekið var inn á vett­vang tveggja slysa

Árni Sæberg skrifar
Mikill viðbúnaður var á vettvangi þar sem mikill viðbúnaður hafði einnig verið skömmu áður.
Mikill viðbúnaður var á vettvangi þar sem mikill viðbúnaður hafði einnig verið skömmu áður. IHA/AP

Sextán eru látnir og 21 slasaður eftir að rútu var ekið inn á vettvang fyrra umferðarslyss í Tyrklandi í dag. Meðal látinna eru slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn og fréttamenn sem sendir höfðu verið á vettvang. Fyrr í dag létust aðrir sextán og 29 slösuðust í sambærilegu atviki í Tyrklandi

Slysið varð í nágrenni borgarinnar Gazientep í suðurhluta Tyrklands í morgun. Borgarstjóri borgarinnar sagði á Twitter í dag að meðal látinna hafi verið þrír slökkviliðsmenn, tveir sjúkraflutningamenn og tveir fréttamenn.

Í frétt breska ríkisútvarpsins um málið segir að rútunni hafi verið ekið inn á vettvang fyrra slyssins, oltið og runnið um tvö hundruð metra. Eftir það hafi nýr hópur viðbragðsaðila verið sendur á vettvang.

Sambærilegt atvik í Mardin

Fyrr í dag varð sambærilegt atvik þar sem flutningabíl var ekið inn á vettvang fyrra umferðarslyss í Mardin í Tyrklandi, sem er aðeins um 250 kílómetra austur af Gazientep.

The Guardian hefur eftir Fahrettin Koca, heilbrigðisráðherra Tyrklands, að átta þeirra slösuðu séu í lífshættu.

Í frétt The Guardian segir að umferðaröryggismál í landinu séu ekki með miklum sóma og að 5.362 hafi látist í umferðinni í Tyrklandi í fyrra.

Fréttin var uppfærð eftir að fregnir bárust af slysinu í Mardin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×