Fótbolti

Jón Dagur kom Leuven á bragðið er liðið vann öruggan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson skoraði fyrir OH Leuven í dag.
Jón Dagur Þorsteinsson skoraði fyrir OH Leuven í dag. vísir/Getty

Jón Dagur Þorsteinsson skoraði fyrsta mark OH Leuven er liðið vann öruggan 1-3 sigur gegn St. Liege í belgísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Jón Dagur kom liðinu yfir á 35. mínútu leiksins áður en Nachon Nsingi tvöfaldaði forystu Leuven á lokamínútu fyrri hálfleiks og staðan því 0-2 þegar gengið var til búningsherbergja.

Nsingi fékk svo að líta beint rautt spjald snemma í síðari hálfleik og Jón Dagur og félagar því manni færri seinustu 40 mínútur leiksins.

Það kom þó ekki að sök því liðið bætti þriðja markinu við þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka áður en heimamenn klóruðu í bakkann í uppbótartíma.

Lokatölur því 1-3 og Jón Dagur og félagar með níu stig í sjötta sæti eftir fimm leiki, fimm stigum meira en St. Liege sem situr í 14. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×